Þann 26. janúar fengum við í ML fimmta Grænfánann okkar við hátíðlega en fámenna athöfn fyrir utan skólann. Það var Sigurlaug Arnardóttir frá Landvernd sem færði nokkrum nemendum úr umhverfisnefndinni fánann og viðurkenningarskjal. Við erum afar stolt af umhverfisstarfi okkar síðastliðin 13 árin og margt gott hefur komið út úr því starfi. Á síðasta tímabili unnum við áfram að vistheimt á Langamel með því að planta trjám og grasi. Við ræddum mikið um hvernig hægt sé að auka mat úr héraði í mötuneyti skólans. Við tókum þátt í Umhverfis Suðurland og Y.R.E (young reporters for the environment) og höldum því áfram. Við viljum gjarnan minnka matarsóun með mismunandi leiðum og höfum rannsakað kosti og galla sorpkvarnar mötuneytisins. Það er í mörg horn að líta þegar um er að ræða heimavistarskóla í sveit. Við höfum lært í gegnum verkefnin okkar að við þurfum að taka tillit til margra þátta og huga að umhverfisáhrifum aðgerða okkar, en einnig að efnahagslegum þáttum og gæta að jafnrétti í hvívetna. Það að vera í umhverfisnefnd er því heilmikið nám í að leita lausna sem allur skólinn getur sætt sig við.

Við höldum ótrauð áfram að vinna að verkefnum í þágu náttúrunnar og hvetjum alla til að gera slíkt hið sama.

Heiða Gehringer,

formaður umhverfisnefndar ML