Menntaskólinn að Laugarvatni hlaut í morgun Grænfánann frá Landvernd sem viðurkenningu á því að skólinn hefur uppfyllt skrefin sjö í verkefninu Skóli á grænni grein en í því verkefni hefur skólinn verið frá árinu 2007. Sjá: http://landvernd.is/graenfaninn/yflokkar.asp?flokkur=1042 . Á samkomu í matsal skólans afhentu fulltrúar Landverndar, Orri Páll Jóhannsson og Gerður Magnúsdóttir, skólanum fánann til varðveislu og notkunar og tóku fulltrúar skólans í umhverfisnefndinni við honum. Orri Páll ræddi um umhverfismál heimsins, sjálfbærni og svo verkefnið sem ML er þátttakandi í. Að því loknu var fáninn dreginn að húni á plani aðalbyggingar af stallara og varastallara nemendafélagsins Mímis, þeim Öldu Magnúsdóttur og Héðni Haukssyni. Nemendur og starfsfólk sungu síðan skólasönginn, Til fánans eftir Einar Benediktsson.
Þrír framhaldsskólar eru handhafar Grænfánans í dag og er það mikill heiður fyrir ML að tilheyra þeim hópi. Hinir framhaldsskólarnir eru FÁ og MA en þess utan eru 6 aðrir framhaldsskólar í verkefninu Skóli á grænni grein. Fjölmargir leikskólar og grunnskólar í landinu eru með Grænfánann. Landvernd tekur út þá skóla sem eru handhafar fánans á tveggja ára fresti enda er sjálfbærni og umhverfisvitund eilífðarverkefni. Margt gott hefur áunnist í ML en áfram verður unnið að því að gera góða hluti betri. Hamingjuóskir til okkar allra.
hph