Á dögunum fóru nemendur í myndlist í heimsókn í Gullkistu – miðstöð sköpunar- á Laugarvatni. Þar tóku á móti okkur skemmtilegir listamenn: Alicia Rios og Juan Borgognoni, frá Spáni og Argentínu.

Við heimsóttum þau tvisvar og í fyrra skiptið fengum við að kynnast lífi Aliciu, en hún er matarlistamaður. Hún hefur farið um allan heim, staðið í mótmælum og tjáð sig í gegnum mat. Nánar má kynnast hennar verkum á http://www.alicia-rios.com/en/food/food.html . Alicia lét nemendur ML búa til matarlistaverk sem átti að passa við stemninguna í hirðingjatjaldi („júrti“) inni í rýminu. Hún var mjög ánægð með útkomuna og sagði að íslenski ungdómurinn væri sérstaklega frjáls og frjór í hugsun.

Daginn eftir fengum við að kynnast því hvernig Juan hefur þróast í starfi. Hann er ljósmyndari en er farinn að nota hljóð meira og meira. Hann tekur upp hljóð í umhverfi sínu og notar þau í verkin sín. Skoðið endilega https://juanborgognoni.com/ . Juan skipti nemendunum í þrjá hópa og lét þau búa til hljóð með líkama sínum og með alls kyns áhöldum. Hann tók svo upp tónlistina og hver veit nema að tónar ML-inga fái að hljóma undir nýjasta verki hans um Laugarvatn.

Listafólkinu leist svo vel á hópinn okkar að þeim var boðið að koma og heimsækja þau í Madrid þegar þau vildu.

Við erum mjög þakklát að fá að kynnast lífi listafólks og ég er viss um að nokkur ljós hafi kviknað í hugum nemenda. Það er gott að hitta fólk sem brennur fyrir listina sína og gefur okkur ný sjónarhorn á lífið. „Gullkistan“ er réttnefni á þessa starfsemi hjá Öldu Sigurðardóttur og félögum. Þar leynast gull fyrir litla samfélagið okkar.

Að lokum langar mig að þakka nemendunum mínum sérstaklega fyrir sýnda prúðmennsku og að vera skólanum okkar til sóma. Hér eru nokkrar myndir, og hér fyrir neðan má sjá nokkur myndbönd.

 

https://www.facebook.com/mlsidan/videos/549915082536824/

https://www.facebook.com/mlsidan/videos/484343388918400/

https://www.facebook.com/mlsidan/videos/496793791237156/

Heiða Gehringer, kennari