Miðvikudaginn 11. janúar gerðu Selfyssingar sér ferð á Laugarvatn til að eiga æfingaleik í Morfís ræðukeppni þar sem tekist var á um ágæti lýtaaðgerða. Lið ML skipuðu Guðmundur Snæbjörnsson, Elvar Orri Jóhannsson, Helgi Jónsson og liðsstjórinn Steinn Daði Gíslason. Liðið frá FSU studdi lýtaaðgerðir en okkar lið mælti á móti.
Nemendur fjölmenntu á keppnina og hvöttu sitt lið áfram. ML bar sigurorð af andstæðingunum með meira en 500 stiga mun og ræðumaður kvöldsins var heimamaður, Helgi Jónsson.
Það er ljóst að hér er hörku ræðulið á ferð. Guðmundur, Elvar og Helgi voru vel undirbúnir, ræðurnar rökfastar og sannfærandi, flutningur vandaður og kröftugur og húmorinn skammt undan. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.
Við þökkum FSU góða keppni og óskum þeim velgengni í viðureign sinni gegn MS næsta föstudag.
Freyja
Það er rétt að því sé haldið til haga, að dómararnir þrír, komu allir frá ML, þær Freyja Rós Haraldsdóttir, kennari, Alda Magnúsdóttir og Brynja Sóley Plaggenborg. Sú staðreynd hafði hinsvegar ekkert með niðurstöðuna að gera.
pms