morfislidÞað voru talsverð tímamót í félagslífi nemenda í ML í gærkvöld, 15. feb., en þá tók skólinn fyrsta sinni þátt í Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna, MORFÍS.  Keppnin fór fram í matsal skólans og fjölmenntu nemendur til að styðja sitt lið. Andstæðingurinn var Menntaskólinn á Akureyri, en með liði þeirra Akureyringa kom hópur af vel þjálfuðu klapp- og söngliði.

Það væri ekki rétt að halda því fram, að lið ML hafi rústað andstæðingum sínum, en þeir piltarnir í liðinu velgdu þeim verulega undir uggum og náðu sérlega góðum árangri, ekki síst í ljósi þess, að hér er engin hefð fyrir svona keppni, hvorki meðal liðsmannanna sjálfra né stuðningsmannanna. Hvorir tveggja ganga frá leik ósárir, stoltir og harla ákveðnir í að tileinka sér þá takta sem leiða til toppárangurs í þessari grein á komandi árum.

 

Keppnislið ML var skipað þeim Steini Daða Gíslasyni, Guðmundi Snæbjörnssyni, Elvari Orra Jóhannssyni og Helga Jónssyni. Fundarstjóri var Ívar Sigurðsson. Liðið naut þjálfunar og utanumhalds Valgarðs Reynissonar, kennara.

 

Úrslitin urðu þessi, samkvæmt vef MORFÍS:

Menntaskólinn á Akureyri sigraði Menntaskólann að Laugarvatni í gærkvöldi með 328 stiga mun. Heildarstig voru 2374 og refsistig 6, en þau skiptust jafnt milli liða. Dagur Þorgrímsson, frummælandi MA var ræðumaður kvöldsins með 548 stigum.

-pms

Það er mikið af myndum frá keppninni á myndasíðunni.