Á vordögum sóttu Jóna Björk Jónsdóttir, líffræðikennari, og Jóna Katrín Hilmarsdóttir, enskukennari, um styrk til NordPlus Junior sem er sjóður sem styrkir skóla til norræns samstarfs. Umsóknin var gerð með það í huga að 2N (sem þá var 1N) myndi taka þátt í samstarfsverkefni ef af yrði. Fyrir valinu varð framhaldsskóli á vestur Jótlandi í Danmörku sem ber nafnið Vestjysk Gymnasium. Við ákváðum í sameiningu um að sækja um styrk til að koma af stað verkefni milli skólanna sem á íslensku ber heitið „Sjálfbærni og losun gróðurhúsalofttegunda í nautgripum á Íslandi og í Danmörku“. Í hönd fór umsóknarferli og í júní fengum við tilkynningu um að verkefnið hefði hlotið styrk úr sjóðnum.
Í gær, þriðjudaginn 18. september komu svo dönsku nemendurnir með kennurum sínum hingað á Laugarvatn. Saman fórum við í ferð um uppsveitirnar á þessa staði helsta: Þingvelli, Friðheima, Brúarhlöð, Gullfoss og Geysi. Veðrið lék við okkur og nutum við samverunnar og áttum eftirminnilegan dag. Í lokin sýndu nemendur 2N skólann og heimavistirnar.
Á fimmtudaginn munum við svo fara að Hjálmstöðum og mæla magn metangass frá kúnum á þeim bænum.
JBJ/JKH/pms — MYNDIR