strokkurh12Á vordögum sóttu Jóna Björk Jónsdóttir, líffræðikennari, og Jóna Katrín Hilmarsdóttir, enskukennari, um styrk til NordPlus Junior sem er sjóður sem styrkir skóla til norræns samstarfs.  Umsóknin var gerð með það í huga að 2N (sem þá var 1N) myndi taka þátt í samstarfsverkefni ef af yrði.  Fyrir valinu varð framhaldsskóli á vestur Jótlandi í Danmörku sem ber nafnið Vestjysk Gymnasium.   Við ákváðum í sameiningu um að sækja um styrk til að koma af stað verkefni milli skólanna sem á íslensku ber heitið „Sjálfbærni og losun gróðurhúsalofttegunda í nautgripum á Íslandi og í Danmörku“.  Í hönd fór umsóknarferli og í júní fengum við tilkynningu um að verkefnið hefði hlotið styrk úr sjóðnum.

Í gær, þriðjudaginn 18. september komu svo dönsku nemendurnir með kennurum sínum hingað á Laugarvatn. Saman fórum við í ferð um uppsveitirnar á þessa staði helsta: Þingvelli, Friðheima, Brúarhlöð, Gullfoss og Geysi.  Veðrið lék við okkur og nutum við samverunnar og áttum eftirminnilegan dag.  Í lokin sýndu nemendur 2N skólann og heimavistirnar.

Á fimmtudaginn munum við svo fara að Hjálmstöðum og mæla magn metangass frá kúnum á þeim bænum.

JBJ/JKH/pms —  MYNDIR