img_1104Rafmagn var óstöðugt á Laugarvatni í gær, þó engan veginn sé hægt að bera það saman við hvað margt fólk hefur átt við að stríða í öðrum landshlutum. Þetta rafmagnsflökt hafði ekki síst áhrif  á tölvukerfi og olli ýmsum sveiflum í hugarheimum sem treysta mikið á slíkt í störfum sínum.

Það var nú samt ekki rafmagnsflöktið sem olli því, að á tilkynningatöflu nemenda hafði í gærmorgun, verið komið fyrir talsverðum földa af A4 blöðum sem ekkert hafði verið skrifað á, utan það sem efst var í vinstra horni, en þar stóð: Facebook fyrir ML-inga, Það var svo eins og við manninn mælt: síðan blöðin komu upp hefur  stöðugt bæst við textann sem á þau er skráður. Þarna má finna margt það sem fólk dundar sér við á þessum samfélagsmiðli yfirleitt, allt frá nokkurri speki niður í umtalsverða lágkúru, eins og gengur og gerist og slatta af svokölluðum „lækum“.

Ástæðan fyrir ofangreindri uppákomu er ekki rafmagnsflöktið, heldur er hér á ferðinni ein hinna nýrri hefða sem eru að skjóta rótum í nemendasamfélaginu: Netlaus vika. Hún felst í því, í stórum dráttum, að í eina viku er aðgangur nemenda að netsambandi, að frumkvæði þeirra sjálfra, takmarkaður utan skólatíma með það markmið að efla samskipti nemenda á öðrum sviðum, s.s. í félagslífi á vegum nemendafélagsins Mímis. Þessi hefð er að festa sig æ betur í sessi og hefur ótvíræðar, jákvæðar hliðarverkanir, en í gærkvöld var fullt út úr dyrum á kaffihúsakvöldi 4ða bekkjar, enda var þar gnótt gæða bakkelsis og vandað til dagskrár. 

Frá því þessari „hefð“ var ýtt úr vör hefur hún hlotið æ jákvæðari viðtökur, og hver veit nema netlausum vikum fjölgi, óháð rafmagnsflökti.

pms