Nemendur í 2. bekk fóru í Njáluferð á dögunum. Með í för voru Elín Una íslenskukennari og Óskar H. Ólafsson, fyrrverandi sögukennari skólans. Óskar sem kominn er hátt á níræðisaldur fór létt með leiðsögnina enda hefur hann farið í ótal Njáluferðir með nemendum skólans. Að vanda fór hann blaðlaust með ljóðið Gunnarshólma eins og hann leggur sig og varð hvergi fótaskortur á tungunni þrátt fyrir slæman vegarkafla fram hjá Rauðuskriðum!

Áð var á helstu sögustöðum þar sem nemendur m.a. léku og túlkuðu atburði bókarinnar með glensi og innlifun.  Við Gunnarsstein börðust Gunnar, Kolskeggur og Hjörtur við þrjátíu menn (en felldu samt fjórtán!) og í Sögusetrinu á Hvolsvelli hreyttu Hallgerður og Bergþóra fúkyrðum hvor í aðra! Á bæjarhólnum á Bergþórshvoli vakti reiðinnar býsn af kindataði einkum athygli nemenda.

Veðrið lék við ferðalanga þennan dag og virtust allir skemmta sér vel. Hér eru myndir úr ferðinni.

Elín Una Jónsdóttir