Það hefur verið fastur liður hjá ML að fara með alla nemendur í öðrum bekk í Njáluferð þegar líður á haustið. Vel gert af skólanum að bjóða upp á slíka ferð á söguslóðir og hlýtur að vera til hagsbóta fyrir nemendur að að fara á staðina sem helst er minnst á í Njálu.
Lagt var í hann kl. 08.15 mánudaginn 04.11. Ekið á Selfoss þar sem við tókum Óskar Ólafsson upp í rútuna og keyrðum síðan austur Flóann. Fyrsti áfangastaður var Gunnarssteinn þar sem þeir bræður Gunnar, Kolskeggur og Hjörtur börðust við 30 manns og unnu frækinn sigur, en þó misstu þeir þar Hjört. Settur var upp bardagi en nemendur höfðu tekið með sverð og skildi, skikkjur ofl. til að hafa allt sem raunverulegast. Frá Gunnarssteini fórum við í Njálusetrið þar sem sýningin var skoðuð, einnig kannað hve mikið var eftir að sauma í refilinn og þá kíktu einhverjir inn á Kaupfélagssafnið. Þarna var svo grillaður hamborgari með öllu og eftir matinn var ekið að Hlíðarenda þar sem Gunnar bjó og var svo á endanum veginn því honum þótti hlíðin svo fögur að hann vildi hvergi annars staðar vera. Þaðan var svo farið á Bergþórshvol og loks heim á leið og vorum komin þangað um kl. 14.30.
Óskar Hafsteinn Óskarsson fór sem fararstjóri fyrir hönd Elínar Unu Jónsdóttur sem ekki komst með og stóð sig vitanlega afar vel í því hlutverki og setti upp bardagann við Gunnarsstein eins og alvanur leikstjóri. Faðir hans, Óskar Ólafsson er einn af fyrstu stúdentum Menntaskólans að Laugarvatni og kenndi á Laugarvatni í rúma 3 áratugi. Hann hefur verið alveg einstaklega hjálplegur við okkur undanfarin ár og komið með sem leiðsögumaður og það er eiginlega erfitt að útskýra hve mikils virði það hefur verið að hafa hann með. Afskaplega ljúfur maður og á enn mjög auðvelt með að hrífa nemendur með sér í verkefnið og að hlusta á hann þylja upp allan Gunnarshólmann án þess að hika einu sinni er undravert af tæplega níræðum manni. Þó Njála sé í aðalhlutverki í ferðinni tekst Óskari líka að lauma inn aukafróðleik eins og um Flóaáveituna og hvers vegna Þjórsá ber nafn sitt ofl.
Það eru forréttindi að fá að fara með í svona ferðir, takk fyrir.
Myndir úr Njáluferð
Pálmi Hilmarson öku- og myndatökumaður.