38830295391 6c9db38b8b m MobileHér við Menntaskólann að Laugarvatni hefur skapast sú afbragðsgóða hefð að fara með nemendur annars bekkjar í ferðalag um sögusvið Brennu-Njáls sögu. Þetta er gert í samhengi við að nemendur lesa Njálu að hausti og fá söguna síðan beint í æð þegar farið er á alla helstu sögustaðina í Rangárþingi.

 Í byrjun nóvember settum við okkur í fótspor Gunnars, Njáls, Hallgerðar og Skarphéðins. Leiðsögumaðurinn var ekki af verri endanum, en undanfarin ár hefur Óskar Ólafsson, fyrrverandi kennari og aðstoðarskólameistari við ML, séð um leiðsögn fyrir okkur. Það eru mikil forréttindi að hafa slíkan snilling sem Óskar er með í för. Óskar er einstaklega fróður um Njálu, auk þess að vera frábær kennari og hann smitaði nemendur af áhuga sínum og krafti.

Ferðin hófst við ML snemma morguns og lá leiðin að Gunnarssteini og Knafarhólum þar sem bræðurnir Gunnar, Kolskeggur og Hjörtur börðust við um 30 menn undan Þríhyrningi. Næst tók við heimsókn í Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem tekið var á móti hópnum inni í skálanum og Sigurður forstöðumaður ræddi m.a. um hvernig skipað var til sætis í skálum á víkingatímum. Þá var komið að hádegisverði í Björkinni þar sem flatbökur og franskar runnu ljúflega ofan í svanga maga.

Eftir hádegi fórum við inn Fjótshlíðina þar sem Óskar hélt áfram að fræða nemendur um atburði við Grjótá, Þríhyrning og Hlíðarenda. Þar fórum við út og bárum með eigin augum hlíðina fögru sem Gunnar vildi ekki yfirgefa. Kalt var í veðri þannig útistopp voru ekki löng, en samverustundirnar í rútunni þeim mun betri. Hápunkturinn var, fyrir þá sem þetta ritar, þegar við fórum framhjá Rauðuskriðum og stóra Dímon en þá fór Óskar með kvæðið „Gunnarshólma“ eftir Jónas Hallgrímsson. Að venju fór hann með kvæðið í heild sinni utanbókar, sem er aðdáunarvert, enda sátu nemendur og hlustuðu dolfallnir. Geri aðrir betur!

Síðasti viðkomustaðurinn tengdur Njálu var Berþórshvoll þar sem við gerðum okkur í hugarlund atburði tengda brennunni miklu sem sagan er nefnd eftir. Á heimleiðinni sungu allir sem kunnu í rútunni ljóðið „Í Hlíðarendakoti“ eftir Þorstein Erlingsson, en við keyrðum einmitt framhjá Hlíðarenda á ferð okkar. Eins þá kryddaði Óskar heimleiðina með sögum af Kampholtsmóra og fleiri góðum draugum af Suðurlandi, nemendum til mikillar gleði. Þá rakti Óskar ekki aðeins helstu ættir í Brennu-Njáls sögu heldur einnig ættir og uppruna margra nemenda – eins og hans er von og vísa. Óskar var kvaddur með lófaklappi á Selfossi og komum við heim til Laugarvatns um 15:30.

Pálmi Hilmarsson sat undir stýri að vanda og sá til þess að allt gengi eins og í sögu. Nemendur voru til fyrirmyndar í alla staði og sameinuðust um að gera ferðina vel heppnaða. Ég vil þakka nemendum 2. bekkjar, Pálma og Óskari fyrir ánægjulega ferð.

Myndir úr ferðinni hér.

Aðalbjörg Bragadóttir, íslenskukennari.