Á NjáluslóðSá ágæti siður hefur verið við líði hjá Menntaskólanum að Laugarvatni að fara sérhvert haust með nemendur annars bekkjar í ferðalag á Njáluslóð. Það er vitanlega í samhengi við að nemendur hafa lesið Njálu frá fyrstu haustdögum og til að fá hana beint í æð þá er farið á alla helstu sögustaðina í Rangárþingi. Hvenær fyrst var farið höfum við ekki á hreinu en eflaust hafa það verið dr. Haraldur Matthíasson og Kristinn Kristmundsson sem stóðu að því. Þar hefur farið öflugt tvíeyki og ekki neinn komið að tómum kofum hjá þeim ef spurt var um hvaðeina úr Njálu. Sá sem þetta ritar hefur verið svo heppinn að hafa fengið að vera bílstjóri fyrir ML í nokkuð mörg ár þegar farið er á Njáluslóðir. Fyrstu ferðirnar sá Kristinn heitinn skólameistari um. Þegar hann hætti fararstjórn tók Þór Vigfússon við keflinu og gerði það skörulega eins og hans var von og vísa, kryddaði svo heimleiðina með ágætum sögum af Kampholtsmóra og fleiri góðum draugum af Suðurlandi. Nokkur undanfarin ár hefur Óskar Ólafsson svo séð um leiðsögn fyrir okkur. Það mega klárlega teljast forréttindi að hafa slíkan snilling sem Óskar er með í för.  Bæði er maðurinn einstaklega fróður um Njálu auk þess að vera einhver besti kennari sem völ er á enda hokinn af reynslu í þeim efnum. Hann brást okkur ekki þetta haustið frekar en þau fyrri og leiddi hópinn hringinn með ýmiskonar kryddi sem gerði að verkum að dagurinn var fljótur að líða og skemmtilegur.

Ferðin hófst við ML snemma morguns og var ekið á Selfoss að sækja Óskar. Þaðan fórum við beina leið í Gunnarsstein þar sem þeir bræður Gunnar, Kolskeggur og Hjörtur börðust við 30 menn og höfðu sigur. Því næst var heimsókn í Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem tekið var á móti hópnum með stuttum fyrirlestri um hvernig skipað var til sætis í skálum til forna ofl. Næst var það hádegisverður í Björkinni þar sem við fengum hlaðborð af pitsum með frönskum og kokteilsósu og gosi.  Þá fórum við inn Fljótshlíðina þar sem Óskar fór yfir atburði við Grjótá, Þrýhyrning, Breiðabólsstað (ekki Njálutengt reyndar) og loks komið í Hlíðarenda. Þar er gott útsýni yfir Landeyjar og má leiða líkum að því að ekki hafi útsýnið verið síðra á dögum Gunnars og því vel skiljanlegt að honum hafi þótt hlíðin fögur og hvergi viljað fara. Frá Hlíðarenda er farið inn fyrir Hlíðarendakot en þar sungu allir sem kunnu í rútunni lagið „Fyrr var oft í koti kátt“ við ljóð Þorsteins Erlingssonar sem var frá þeim bæ.

Meðan við svo ökum framhjá bænum Rauðuskriðum og stóra Dímon er Óskar vanur að fara með kvæðið „Gunnarshólma“ eftir Jónas Hallgrímsson. Það gerði hann líka núna og hikaði ekki í eitt einasta sinn allt kvæðið og verður það að teljast vel af sér vikið fyrir mann á hans aldri – reyndar á hvaða aldri sem er,  enda sátu nemendur og hlustuðu dolfallnir. Við komum svo í hlað á Bergþórshvoli um kl. 14.30 og þar var farið yfir atburði á hólnum. Vel má ímynda sér hvernig Kári sleppur logandi undan brennumönnum, eða sjá fyrir sér Njál og Bergþóru leggjast til hinstu hvílu með barnabarn sitt með sér sem neitaði að yfirgefa þau, nú eða Skarphéðinn henda jaxlinum úr Þránni Sigfússyni í auga Gunnars Lambasonar þannig að það stóð út á kinn! Jaxlinn hafði hann hirt úr Þránni Sigfússyni á sínum tíma þegar hann renndi sér fótskriðu yfir Markarfljót og hjó hann í herðar niður eins og sagt er.

En þá var ekki annað eftir en koma sér heim, Óskar var kvaddur með lófaklappi á Selfossi og við náðum aftur á Laugarvatn um kl. 15.45, rétt mátulega í seinna kaffi. Aðalbjörg Bragadóttir kennari á veg og vanda að þessari ferð en komst því miður ekki með vegna veikinda. Pálmi húsbóndi var því í hennar stað fararstjóri.

Pálmi Hilmarsson.

Myndir af Njáluslóð