Nýlega lögðu raungreinakennarar og verkefnastjóri UT í ML í langferð norður í land. Var heimsóknin liður í þróunarverkefni í stærðfræði innan ML. Ætlunin var að kynnast starfi kennara bæði við Menntaskólann á Tröllaskaga (MTR) og Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra (FNV).
Var ekið norður á Ólafsfjörð á sunnudeginum eftir göngur og réttir. Er Menntaskólinn á Tröllaskaga þekktur fyrir nýjungar í skólastarfi og innleiðingu nýrra kennsluhátta. Á mánudagsmorgninum hittum við skólameistara og annað starfsfólk skólans. Við sátum faggreinafund innan skólans ásamt því að kynna þróunarstarf okkar á Laugarvatni. Eftir góða kynningu af skólastarfinu og hádegismat á Kaffi Klöru var haldið á Sauðárkrók. Þar hittum við stóran hluta stærðfræðikennara í Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra og áttum með þeim góðan fund. Að lokum lá leiðin í verknámshús FNV þar sem við fengum kynningu á bæði Fablab og þeirri vinnu sem þar fer fram með grunn- og framhalds-skólanemum.
Þetta var bæði fróðlegur og skemmtilegur dagur þar sem stærðfræðikennsla og almennt kennslufyrirkomulag var skoðuð frá fjölmörgum hliðum. Við ókum svo sem leið lá heim á leið um kvöldið enda kennsla í ML komandi þriðjudagsmorgun.
Síðastliðinn föstudag vorum við undirrituð svo með kynningu á þróunarverkefninu á Ráðstefnu um rannsóknir og nýbreytni í framhaldsskólum á vegum samtaka áhugafólks um skólaþróun. Tókst sú kynning ágætlega og skapaðist góð umræða almennt um leiðsagnarmat.
Með kveðju Baldur, Ella Jóna, Jón og Lóa