Mikil þróun hefur átt sér stað í Menntaskólanum að Laugarvatni í námi og kennslu um langa hríð. Það er eðli skólastarfs að breytast og þróast meðal annars vegna þess að samfélagið er sífelldum breytingum háð.
Innleiðing nýrrar námskrár og ekki síður stytting náms til stúdentsprófs hefur kallað á enn frekari þróun og breytingar. Í ML hefur nám og kennsla þróast meir og meir í átt til verkefnamiðaðs náms og símats. Einn þáttur þess er breyting á skipulagi stundatöflu og vinnulags. Á þessari önn er gerð tilraun með svonefndar vinnustundir. Þær eru í stundatöflu eftir hádegi á þriðjudögum og miðvikudögum, samanlagt 4 klukkustundir. Í vinnustund eru kennarar í sínum stofum og leita nemendur að eigin vali til þess kennara þar sem þeir þurfa frekari aðstoðar við eða leiðbeiningar vegna síns náms. Það er mætingaskráning skv. ákveðnu kerfi og skyldumæting. Nemendur geta þó staldrað stutt við hjá einum kennara sínum og lengur hjá öðrum, allt eftir þörf hverju sinni að þeirra mati. Ræður þar um eigið mat nemandans á verkefnastöðu og vinnuálagi í hverjum áfanga. Í nánast öllum áföngum er utan vinnustunda kennsla og nám tvisvar í viku, eina og hálfa klukkustund í senn.
Foreldra/forráðamenn eru hvattir til að fylgjast vel með námi barna sinna en það má gera í gegnum aðgang þeirra að upplýsingakerfinu Innu, kennslu-og námsumhverfinu Moodle og ekki síður með uppbyggilegum samræðum og góðum tengslum.
Bent er á að sem fyrr geta nemendur sem orðnir eru lögráða veitt foreldrum/forráðamönnum sínum umboð í þá veru að engin breyting verði á fyrirkomulagi og upplýsingastreymi skólans, sem og aðgangi foreldra/forráðamanna að upplýsingakerfinu, þó nemandinn sé orðinn lögráða. Á það einnig við m.a. um veikindatilkynningar, leyfisbeiðnir, óskir foreldra/forráðamanna um upplýsingar um námsgengi barna þeirra o.s.frv.
Skólameistari