Sú var tíð, að nemendur fundu hjá sér einhverja þörf til að sleppa fram af sér beislinu á prófatíma í maí með því að fara í vatnsslag. Það fór allt úr böndunum og innviðir heimavistarhúsanna urðu fyrir meiri áþján en hægt var að una við. Því var það að Pálmi beislaði þessa innibyrgðu þörf með því að skipuleggja vatnsslag á tilteknum stað á tilteknum tíma. Það sem meira var, hann útvegaði slökkviliðsbíl, ef hann var ekki í notkun, tengdi hann við brunahana, lagði tvær brunaslöngur í tunnur úti á túni og skrúfaði frá. Þar með hófst tími hins skipulagða vatnsslags, sem hefur fest sig rækilega í sessi. Í gær var, sem sagt, árlegur vatnsslagur haldinn með pompi og prakt á túninu fyrir vestan Kös.
Ekki verður annað séð, en að ungdómurinn hafi haft nokkuð gaman af eins og venja er til.
Ekki var mikið um nýjungar, en þó bar það við, að bjartsýnismaður fór í slaginn með regnhlíf, væntanlega til að komast hjá því að vökna, en ef hægt er að vera viss um eitthvað, þá er það það, að ef maður tekur þátt í vatnsslag, þá verður maður blautur. Þar skiptir regnhlíf harla litlu máli.
pms