merkimlVið erum að leggja lokahönd á innritun nýrra nemenda þessa dagana. Aðsókn að skólanum er með ágætum, en það hefur auðvitað í för með sér að við getum ekki tekið inn alla þá sem hingað vilja koma. Nýnemar í 1. bekk verða 54 og 5 nýnemar munu setjast í 2. og 3. bekk. Framundan er bið eftir heimild til að senda nýjum nemendum upplýsingar um skólann og hvað þeirra bíður í ágúst.  Að öðru leyti erum við bara klár til að loka á eftir okkur, þar sem við göngum frjálsleg í fasi og vongóð mót blíðviðri sumarsins. Sannarlega blundar í okkur tilhlökkun vegna komandi hausts; að hitta nýja nemendur og eldri; upplifa enn á ný æskufólkið sem ætlar sér að leggja sig fram við að undirbúa framtíðina.  

Við munum loka skrifstofu skólans frá og með mánudeginum 20. júní, en verðum samt á vaktinni ef þörf reynist á.  Þeir sem vilja eða þurfa að ná sambandi við okkur gera það best með því að senda tölvupóst á netfangið ml@ml.is. Við munum vakta það áfram.

Skrifstofuna ætlum við síðan að opna aftur miðvikudaginn 10. ágúst. Þar verðum við komin til að undirbúa haustönnina, ólgandi af starfsgleði og tilhlökkun, svona rétt eins og vera ber.

Njótum nú alls þess góða sem sumarið lofar okkur og látum okkur hlakka til ánægjulegs komandi vetrar.

pms