plontulykillNú, líkt og undanfarin ár, fara nemendur á öðru ári náttúrfræðibrautar út í sumarið með það verkefni að gera plöntusafn sem hluta af námsefni í vistfræði.
Í þetta sinn varð sú nýbreytni að þeir sem eiga snjallsíma eða hafa aðgang að slíkum símum (iphone eða android) gafst kostur á að hlaða inn í símana forriti, sem auðveldar plöntugreininguna, sér að kostnaðarlausu. Forritið eða appið nefnist Plöntulykillinn og var hannað af Sigmundi Helga Brink og Guðmundi Frey Hallgrímssyni.

 Í forritinu er greiningarlykill fyrir íslensku flóruna, yfir 800 ljósmyndir af íslenskum plöntum og býður það upp á einfaldar greiningaraðferðir, auk þess sem öll hugtök eru útskýrð með skýringarmyndum. Hörður Kristinsson, höfundur Íslensku plöntuhandbókarinnar lagði til texta í lýsingum, ljósmyndir og grunn í útbreiðslukortin sem fylgja öllum tegundum.
Þeim nemendum og starfsmönnum menntaskólans sem áhuga höfðu, bauðst einnig að hlaða forritinu niður og voru margir sem nýttu sér tækifærið og nota vonandi sumarið vel til að greina þær plöntur sem á vegi þeirra verða.

Ég vil þakka þeim Sigmundi og Guðmundi kærlega fyrir rausnaskapinn, um leið og ég óska nemendum 2N og öllum hinum blómlegs sumars.

 

Jóna Björk Jónsdóttir