profatimiÞað eru haldin formleg próf við skólann í lok haustannar og vorannar. Á undanförnum árum hefur símat verið að aukast og á móti hefur vægi lokaprófa minnkað. Vægi prófanna er talsvert misjafnt milli greina og kennara, frá því að vera um 30% upp í um 70%.
Í síðasta lagi mánuði fyrir upphaf prófatíma er próftaflan birt nemendum og allt fyrirkomulag prófanna er kynnt nýnemum eins rækilega og kostur er. Fyrir hvern prófdag er útbúið skipulag prófanna þann daginn: hvar hver nemandi á að vera, hvaða kennarar sitja yfir og hverjir leysa af. Þetta skipulag er hengt upp í síðasta lagi að morgni prófdags, þannig að allir vita að hverju þeir ganga.
Þegar skólameistari hringir bjöllunni klukkan hálf níu, eru stofurnar orðnar klárar og nemendum er hleypt inn. Þeir þurfa að sitja við í að minnsta kosti 45 mínútur, en að jafnaði er gert ráð fyrir tveggja tíma prófum. Nokkrir nemendur sækja  um lengri próftíma hjá námsráðgjafa og þeir fá þá að sitja við 30 mínútum lengur, ef þörf reynist á. Nokkrir nemendur fá að taka próf á bókasafninu, af ýmsum ástæðum.
Sannarlega eru nemendur misvel undirbúnir fyrir prófatörn af þessu tagi: allt frá því að ganga til leiks í fullvissu þess að hafa unnið jafnt og þétt alla önnina, í það að treysta á að bjarga sér á lokametrunum.
Formlegum prófum lýkur miðvikudaginn 14. desember, en eftir það verða haldin sjúkrapróf eftir þörfum, einkunnir birtar og gengið frá önninni að öðru leyti.
Þá er ekkert annað eftir en undirbúa vorönnina áður en hægt er að snúa sér að því að fagna jólahátíð.
pms
(Myndin er tekin í prófi í morgun, en það var í fyrsta sinn í fyrra, að við fórum að prófa á stóra ganginum (fyrir þá sem vita hver hann er))