Í vor voru gerðar rannsóknir á meðal nemenda og kennara ML, til að kanna viðhorf og upplifun af nýtilkomnum vinnustundum. Nemendur í 4F söfnuðu gögnunum undir handleiðslu kennara, en það var hluti af námi þeirra í aðferðafræði félagsvísinda.
Annars vegar voru tekin eigindleg viðtöl við 14 nemendur í skólanum. Hinsvegar var lögð fyrir megindleg spurningalistakönnun; 115 nemendur af 170 svöruðu könnuninni, sem gerir 67% svarhlutfall. 11 kennarar af þeim 15 sem voru með vinnustund svöruðu, sem gerir 73% svarhlutfall.
Niðurstöður benda til þess að það hafi verið jákvætt skref að taka upp vinnustundir, en í rannsóknargögnunum kom líka ýmislegt fram sem mun nýtast vel í áframhaldandi þróun vinnustundanna. Unnið er að ítarlegri skýrslu en hér fylgir smá sýnishorn af því sem kom í ljós.
100% þeirra kennara sem svöruðu sögðust hafa mjög eða frekar jákvætt viðhorf til vinnustunda almennt.
78% nemenda sem svöruðu sögðust hafa mjög eða frekar jákvætt viðhorf til vinnustunda almennt. 17% nemenda svöruðu „hvorki né“ og einungis 5% þeirra sögðust hafa frekar neikvætt viðhorf til vinnustunda.
Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt.
Freyja Rós Haraldsdóttir – kennari í félags- og hugvísindum.