Á vorönn bauðst Menntaskólanum að Laugarvatni að taka þátt í samkeppni á vegum Oddfellowreglunnar á Íslandi þar sem þemað eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nemendur í 2. bekk tóku þátt og var keppnin haldin í samvinnu við enskudeildina. Unnar voru flottar kynningar og ritgerðir í kjölfarið og kennarar enskudeildar tilnefndu 10 nemendur úr þeim hópi sem voru svo boðaðir í stutt viðtal við dómnefnd á vegum Oddfellowreglunnar.

Tveir nemendur áttu kost á að vinna til glæsilegra verðlaunanna sem er að fara með hópi nemenda frá evrópskum löndum til New York og Washington þar sem farið verður í margar heimsóknir og á marga staði, meðal annars í heimsókn í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna og á Broadway-sýningu. Fyrstu daga ferðalagsins mun allur hópurinn dvelja á Íslandi og kynna sér til að mynda Reykjanes Geo-Park og svo heldur ferðin áfram vestanhafs.

Hlutskörpust í samkeppninni voru þau Svavar Axel Malmquist og Guðný Helga Sæmundsen og munu þau fá viðurkenningu frá Oddfellowreglunni um leið og samkomubanni verður aflétt og aðrar aðstæður í þjóðfélaginu verða hagstæðar. Eins verður ferðinni umræddu frestað þar til sumarið 2021 og óskar Menntaskólinn þessum flottu nemendum til hamingju með frábæran árangur og góðrar ferðar í CoVid-lausri tilveru á næsta ári.

Jóna Katrín Hilmarsdóttir