myndagraejurFyrir nokkru byrjuðum við, með kerfisbundnum hætti, að flytja ljósmyndir á pappír í eigu skólans á rafrænt form. Þær eru merktar og síðan fluttar á vefinn þar sem þær verða aðgengilegar gömlum ML-ingum áður en langt um líður.  Þar með munum við vonandi skapa heim sem ML-ingar á öllum tímum geta horfið inn í hvenær sem á móti blæs.  Þarna vonum við að þeim birtist sýn inn í það æviskeið sem mótaði þá einna mest. Þarna vonumst við til að njóta hjálpar þeirra við að segja söguna bakvið myndirnar.

Við vitum að þetta verk verður ekki hrist fram úr erminni, en í sem stærstum dráttum snýst að um eftirfarandi þætti:

1. Afrita og merkja ljósmyndir á pappír sem eru í eigu skólans og sem honum hafa verið gefnar. Þar munar t.d. mikið um myndirnar hennar Bubbu (Rannveigar Pálsdóttur) frá tíma þeirra Kristins hér á Laugarvatni.

2. Flytja „slides“ myndir sem skólinn hefur fengið að gjöf á rafrænt form og merkja þær áður en leið þeirra liggur á vefinn.

3. Velja myndir úr feikilegu myndasafni skólans frá því rafræn ljósmyndum hófst, merkja þær og skella á vefinn.

4. Leita til júbílanta hvers árs, næstu 5 árin um, að þeir safni, t.d. inn á minnislykil, skemmtilegum myndum frá Laugarvatnsdvölinni og…….. gefi skólanum til frekari varðveislu.

Það varð úr að sá sem þetta ritar mun öðrum fremur sinna þessu verki, enda er það víst svo, að enginn þeirra sem nú starfa við skólann ætti að hafa jafn yfirgripsmikla sýn á þessi mál, hvort sú er síðan raunin, kemur í ljós.  Að verkinu kemur einnig hún Elín Jóna Traustadóttir, en hún er tæknistjórinn og líka gamall ML-ingur.

Það fara spennandi tímar í hönd.

pms