Samkomubann það er stjórnvöld hafa nú sett á sem viðbrögð við Covid-19 kallar á lokun framhaldsskóla á Íslandi. Nemendur Menntaskólans að Laugarvatni verða því að yfirgefa skólann og heimavistina eigi síðar en á sunnudaginn 15. mars. Þeir hafa því miður ekki heimild til að koma á vistir, eða í skólahúsið, á meðan samkomubann varir.
Heilmiklar breytingar verða á skólastarfinu og kennarar standa nú í ströngu við að undirbúa enn frekar vikurnar fram að páskum sem nám í fjarvinnu.
Verkefnið er flókið en kennarar skorast ekki undir þessari ábyrgð og hér munu allir leggja sitt að mörkum við að halda uppi góðu skólastarfi fyrir nemendur þó í fjarlægð verði.
Það er mikilvægt að foreldrar og forráðamenn styðji við börn sín með kærleik og skilningi og hvetji þau til dáða við námið því vissulega krefst það meiri sjálfsaga að sinna námi sínu svo vel sé í fjarvinnu. Það er ætíð heilmikið taumhald fólgið í því að mæta í tíma á hverjum degi í hópi félaga og því verður að skerpa á því við nemendur að vera duglegir að mæta í tímana í gegnum netið, lesa námsefnið og sinna verkefnum af samviskusemi. Það er okkur hjartans mál að tryggja eins vel og okkar er kostur að námsferill nemendanna haldist á áætlun.
Kennslustundir
Nemendur mæta á réttum tíma í rafrænar kennslustundir samkvæmt stundaskrá. Kennarar eru með fjarkennslustund í Teams og taka mætingu.
Vinnustundir
Nemendur skrá sig inn í vinnustundir eins og um venjulega kennslustund sé að ræða.
Verklegir áfangar
Kóraáfangar, myndlistaráfangi, útivistaráfangar og heilsuáfangar eru verklegir áfangar og þarfnast nýrrar nálgunar á þessum tímum. Kennarar áfanganna munu upplýsa nemendur um breytt skipulag þeirra.
Mætingar
Enginn afsláttur er gefinn á mætingum, nemendur mæta á netinu, í Teams.
Kennsluáætlanir
Kennsluáætlanir kunna að taka breytingu hvað yfirferðaráætlun varðar, verkefnaskil og námsmat. Kennarar munu upplýsa nemendur um breytingar sem verða.
Verkefnaskil
Nemendum er gert að sinna náminu jafnt og þétt og virða skiladagsetningar á verkefnum. Eins og nemendur þekkja vel er náms- og kennsluumhverfið í Moodle nýtt að jafnaði til þess.
Námsráðgjöf
Námsráðgjöf mun áfram verða í boði en nú einungis í gegnum tölvupóst eða í síma.
Sálfræðiþjónusta
Breytt skipulag sálfræðiþjónustu verður kynnt í næstu viku.
Viðtalsímar
Viðtalstímar kennara eru á sama tíma og venjulega, sjá heimasíðu skólans.
Skrifstofa
Skrifstofa skólans verður opin virka daga á hefðbundum tíma, kl. 8:00-13:00. Að öðrum kosti er samskiptaleið skólans og foreldra/forráðamanna tölvupóstar og símtöl. Símanúmer skólans er 480 8800.
Kerfismál
Verkefnastjóri upplýsingamála heldur uppi þjónustu eins og kostur er og þörf krefur.
Annað
Leiksýning leikhóps nemendafélagsins Mímis frestast eðlilega en frumsýning átti að vera næstkomandi föstudag. Gera má og jafnvel ráð fyrir að lokatónleikar kórsins færist eitthvað til en þeir eru áætlaðir samkvæmt skóladagatali 28. og 29. apríl. Áætluð ferð nemenda á þriðja ári, sem völdu lokaáfanga í frönsku og þýsku, til Parísar og Berlínar verður ekki farin en hún var áætluð 30. mars til 3. apríl.
Við tökumst á við verkefnið af æðruleysi, með festu og kærleik að leiðarljósi.
Njótum vel í námi, starfi og lífi.
Halldór Páll Halldórsson skólameistari