Fimmtudaginn 31. ágúst lauk kennslu í ML nokkru fyrr en stundaskrá sagði fyrir um, eða kl. 13.20. Ástæðan var að kl. 14.00 var sannkölluð hátíðarstund í íþróttahúsinu þegar undirritaður var samningur milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og sveitarfélagsins Bláskógabyggðar um afhendingu á íþróttamannvirkjunum á Laugarvatni. Menntaskólinn að Laugarvatni, Bláskógaskóli á Laugarvatni og Ungmennafélag Laugdæla munu því í framtíðinni leigja íþróttaaðstöðuna af Bláskógabyggð í stað Háskóla Íslands. Frá því að Háskóli Íslands ákvað að færa nám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur hefur alger óvissa ríkt um framtíð íþróttamannvirkjana, sem hefur verið eytt með þessum samningi.
Í tilefni þessa gengu nemendur og starfsmenn ML fylktu liði frá menntaskólahúsinu að íþróttahúsinu með stallara í fararbroddi með skólafánann. Nemendur og starfsfólk Bláskógaskóla á Laugarvatni, grunn- og leikskóla komu líka í skrúðgöngu niður í íþróttahús og fjölmargir íbúar og gestir voru einnig viðstaddir undirritunina.
Ívar Sæland ljósmyndari tók myndirnar sem sjá má hér.
vs