Í HlíðarfjalliFrá því fyrst var farið að kenna útivist hér í ML hefur það verið einn af hápunktunum að fara í skíðaferðina. Til að byrja með var farið í Bláfjöll og gist þar eina nótt, en það reyndist erfitt í skipulagi því oft var lokað þar þegar við hugðumst fara. Ferð sem þessa þarf að skipuleggja vel og með margra vikna fyrirvara svo það getur verið lotterí að fá gott veður eða réttar aðstæður sem við hittum illa á í Bláfjöllum. Það var svo farin sérstök ferð til Reykjavíkur á skauta.

En þá kom upp sú hugmynd að fara bara alla leið á Akureyri og taka þar í einni ferð bæði skíðin og skautana og það höfum við nú gert í allmörg ár.

Að þessu sinni var haldið af stað í bítið föstudagsmorguninn 15. jan. með 41 nemanda og 4 fararstjóra á góðum bíl frá GT á Selfossi. Ókum sem leið lá í Borgarnes þar sem var stutt stopp en þaðan beina leið í Staðarskála í hádegismat. Þaðan í Varmahlíð þar sem fólk teygði úr sér og síðan alla leið á Akureyri. Þangað komum við kl. 16.00 og fyrsta verk okkar var að fara upp í Hlíðarfjall og leigja búnað fyrir helgina fyrir þá sem það þurftu. Þá fórum við í KA heimilið, en þar gistum við og höfum gert í öllum okkar ferðum norður með útivistina.

Inn með farangur og finna sér dýnu, en við fengum stóran og góðan sal undir hópinn sem fékk aðeins tækifæri til að losa um ferðaþreytuna. Einn af föstu liðunum er að fara í kvöldmat í mötuneyti Menntaskólans á Akureyri og það gerðum við líka nú. Fengum þar ágæta kjúklingasúpu og einhverjir úr hópnum gátu kíkt inn á herbergi hjá vinum sínum sem eru í MA.  Skautahöllin á Akureyri var næst á dagskrá en þar skelltu sér allir á svellið í hátt í tvo tíma. Kveikt var á diskóljósum og tónlist svo þetta var bara hin besta skemmtun.

En það er kraftur í þessum krökkum og þó dagurinn væri orðinn langur þá var samt farið í boltaleiki og eitthvað hlaupið um í KA höllinni þegar komið var aftur í náttstað. Allir komnir í ró upp úr miðnætti og sváfu vært til morguns.

Eftir ágætan morgunverð drifum við okkur upp í fjall og þá kom sér vel að hafa gefið sér tíma í að sækja búnaðinn daginn áður því nú var hægt að fara beint í að renna sér. Veður og færi voru eins og best var á kosið, logn og frost, bjart yfir en sólarlaust í fjallinu. Með í för voru 3 kennarar til að fara yfir grunninn í skíðamennsku fyrir þá sem þurfti að aðstoða og auk þeirra nokkrir nemendur sem búnir eru að taka þennan áfanga, en hefur staðið til boða að koma aftur með og leiðbeina og aðstoða þá sem eru að byrja. Við höfum verið það heppin að fá alltaf aðstöðu inni í skíðaskálanum á efri hæð og verið þar með standandi nesti allan daginn. Þar geta krakkarnir komið og fengið sér rjúkandi heita kjötsúpu, heitt kakó, brauð og álegg eða ávexti hvenær sem þau vilja allan daginn.

Frábær dagur í fjallinu og sundferð og heitur pottur eins og rjómi á pönnsu í lokin. Dominos pitsuveisla var svo kvöldverðurinn og nokkrir fóru í bíó um kvöldið og síðan beina leið í háttinn. Eftir morgunverð á sunnudag gengum við að mestu frá en fengum að geyma dótið í salnum því til stóð að skíða eins lengi og hægt var á sunnudeginum líka. Veðrið var, ef eitthvað er betra en á laugardeginum og nú bættust pitsa afgangar við nestis matseðilinn. Kl. 16.00 fórum við svo úr fjallinu, tókum saman og settum út í rútu dótið okkar og ókum heim á leið um kl. 18.00. Kvöldverður var í Pottinum á Blönduósi, súpa og steiktur fiskur með salati og kókossósu var vel þeginn en virkilega gott er að stoppa á þessum ágæta stað, góður matur og góð þjónusta. Þaðan keyrðum við síðan með einu stuttu stoppi í Staðarskála alla leið heim og vorum að leggja við heimavistir um kl. 01.00 um nóttina með frekar lúinn en líka alsælan hóp eftir mjög vel heppnaða skíðaferð norður í land.

Fararstjórar í ferðinni: Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, Smári Stefánsson,Emilía Jónsdóttir og Pálmi Hilmarsson

PH

Myndir