Svo því sé haldið til haga, þá fögnuðu nemendur 4ða bekkjar í dag kennslulokum formlega. Þessi tímamót köllum við dimissio. Hér eftir kallast þessi hópur bara upp á íslensku, stúdentsefni. Dimissio telst til þeirra hefða sem eru einna rótgrónastar í skólanum og þar þarf allt að vera í föstum skorðum, þó óhjákvæmilega eigi sér stað lítilsháttar aðlögun að breyttum aðstæðum á hverju ári, svona eins og gengur og gerist.
Í þriðju frímínútum, svo dæmi sé tekið, afhjúpa dimittendi búningana sína og þykir það spennuþrungið augnablik þegar þeir skokka í halarófu ofan af fjarvist, niður í kjallara þar sem hinir yngri skólafélagar þeirra bíða í ofvæni eftir afhjúpuninni.
Þarna niðri dunar síðan tónlist út frímínúturnar, en þá halda þau yngri í tíma, en búningafólkið dregur sig aftur upp á sína vist, þar til næsta atriði hefst, í næstu frímínútum. Það er svona sem þessi dagur er genginn, samkvæmt fastri dagskrá, ár eftir ár.
Þau voru skjöldótt þetta árið. Niður stigann geystust skjöldóttar kýr, með haus og hala og júgrum. Þetta var ekki tilviljun og nokkuð fyrirséð búningaval, enda hefur hópur sunnlenskra nemenda af bændakyni myndað afar áberandi hluta þess árgangs sem nú fagnar tímamótum, til að geta síðan fagnað öðrum tímamótum þann 24. maí, n.k. þegar hann verður brautskráður.
Eftir annasaman dag stefna dimittendi og starfsfólk í Efstadal til hátíðarkvöldverðar.
pms
myndir verða settar inn á föstudag.