Menntaskólanum að Laugarvatni var slitið laugardaginn 21. maí og þar voru 35 stúdentar brautskráðir af þrem námsbrautum.
Hæstu einkunn á stúdentsprófi og jafnframt þá hæstu í sögu skólans, hlaut Jón Hjalti Eiríksson frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, 9,78. Hann útskrifaðist af náttúrufræðabraut. Þetta er enn athyglisverðara vegna þess að um er að ræða vegið meðaltal allra einkunna Jóns Hjalta á þeim fjórum árum sem námið stóð. Næst hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Herdís Anna Magnúsdóttir frá Hveratúni í Laugarási, 9,16, einnig af náttúrufræðabraut.
Enn eitt afrekið er ótalið, en systir Jóns Hjalta, Þjóðbjörg Eiríksdóttir, lauk námi sínu í 1. bekk með aðaleinkunninni 9,9.
Fyrir 2 árum lauk bróðir Jóns Hjalta, Ögmundur, prófi frá skólanum með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin, en Jón Hjalti bætti lítillega við það, eins og áður getur.
Þrír nemendur hlutu styrk úr styrktarsjóði Kristins og Rannveigar: Jón Hjalti Eiríksson, Herdís Anna Magnúsdóttir og Sævar Ingi Sigurjónsson
Júbílantar streymdu að úr öllum að úr öllum áttum til að rifja upp ljúfa tíma á Laugarvatni. Þeir þeir færðu skólanum og nemendafélaginu veglegar gjafir eins og þeirra er von og vísa. Um kvöldið sátu þeir hátíðarkvöldverð og komu síðan við hjá skólameistarahjónunum í morgunkaffi áður en þeir héldu heim á leið.
Fram kom í annál aðstoðarskólameistara, að skólinn var fullsetinn í vetur og komust færri að en vildu. 171 hóf nám s.l. haust og 165 gengust undir vorannar- og stúdentspróf..