Nýskipuð skólanefnd Menntaskólans að Laugarvatni sat 109. fund nefndarinnar mánudaginn 3. nóvember.
Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga tilnefnir tvo fulltrúa í nefndina, þau Eydísi Indriðadóttur og Friðrik Sigurbjörnsson en þau hafa bæði átt sæti í skólanefndinni áður. Mennta- og barnamálaráðuneyti skipar þau Sigrúnu Jónsdóttur, Ingunni Erlu Thomsen og Elías Bergmann Jóhannsson og eru þau öll nýir fulltrúar í nefndinni. Þess má til gamans geta að fjórir af fimm fulltrúum eru útskrifuð frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Sigrún Jónsdóttir var kjörin formaður nefndarinnar á þessum fyrsta fundi nýskipaðrar nefndar.
Í skólanefnd ML eru einnig fulltrúar starfsfólks, nemenda og foreldra. Nefndin hefur yfirgripsmiklu hlutverki að gegna og er ráðgefandi við störf skólans. Menntaskólinn býður nýja fulltrúa í nefndinni velkomin til starfa og væntir þess að eiga í farsælu samstarfi við nefndina og geta leitað í öflugan stuðning þeirra.

