Skólinn var settur í 64. sinn að morgni 24. ágúst. Í ræðu sinni við þetta tilefni fjallaði skólameistari um helstu þætti sem máli skipta í skólabyrjun.
Aðsókn að skólanum var afar góð og 54 nemendur setjast nú í 1. bekk, nýnemar eru 58 alls. 91% þeirra koma af Suðurlandi. Nemendur í skólanum við upphaf haustannar eru 154.
Fyrsti og annar bekkur munu stunda nám samkvæmt nýrri námskrá í vetur og stefna á að ljúka námi sínu á þrem árum, en þriðji og fjórði bekkur hyggjast ljúka námi sínu á fjórum árum, í samræmi við eldri námskrá. Þetta þýðir, að vorið 2018 verða brautskráðir tveir stúdentahópar frá skólanum.
Nokkrar breytingar verða í stjórnunarteymi skólans, en Páll M. Skúlason, sem gegnt hefur starfi aðstoðarskólameistara um árabil, lætur af því starfi, en mun verða í hlutastarfi við verkefnastjórn og ráðgjöf í vetur. Jafnframt hefur Áslaug Harðardóttir, þýskukennari, verið ráðin í nýtt starf áfangastjóra og Gríma Guðmundsdóttir, námsráðgjafi og frönskukennari mun gegna hlutverki staðgengils skólameistara.
Kennarar við skólann eru nánast þeir sömu og s.l. vetur. Nýir kennarar koma þó að kennslu nokkurra valáfanga, eða til tímabundinnar kennslu. Á haustönn eru starfsmenn skólans 41, þar af 21 sem starfar við kennslu og stjórnun og 20 sem sinna öðrum störfum: á heimavistum, við ræstingu, við kerfisstjórn, á skrifstofum. í mötuneyti, þvottahúsi og bókasafni.
Fyrsta vika annarinnar er fjörug og stjórn nemendafélagsins Mímis hefur undirbúið ýmsar skemmtilegar uppákomur til að hrista hópinn saman. Lokaatriði vikunnar er hefðbundin skírn nýnema í Laugarvatni. „Skírnin“ er ein elsta hefðin sem enn lifir meðal nemenda skólans og hugmyndir um að leggja hana af vegna þess að hún sé barn síns tíma, hafa ekki látið á sér kræla, enda fengju þær engan hljómgrunn, ef að líkum lætur. ML-ingur telst sá vera orðinn sem hefur verið vatni ausinn með þeim hætti sem þarna er um að ræða. ML-ingur verður hann síðan allt sitt líf.
pms