Fyrsta vikan í fjarvinnu nemenda og kennara vegna samkomubannsins er að líða.  Það verður að segjast að hún hefur gengið einstaklega vel, kennarar og nemendur leggja sig alla fram um að láta hlutina ganga upp.

Nám og kennsla er samkvæmt stundaskrá og er mæting nemenda í fjarvinnuna skráð jöfnum höndum af kennurum í upplýsingakerfi skólans. Nemendur mæta í tíma og vinna verkefni, bæði í einstaklingsvinnu og í hópavinnu, alveg eins og um hefbundna viku sé að ræða. Sú breyting hefur þó orðið á að fólk hittist ekki nema á netinu og öll vinnan fer fram í gegnum tölvurnar.

Mæting nemenda í fjarvinnu er góð og er það afar ánægjulegt.  Almennt séð virðist okkur ganga vel að halda utan um þessa miklu breytingu sem hefur orðið á skólastarfinu og nemendur hafa tekið vel við sér og sinna náminu almennt af alúð.

ML hvetur nemendur sína, með dyggum stuðningi foreldra sinna, til að halda áfram dugnaðinum og ekki að slaka á einbeitingunni við námið nú þegar 2. vika í fjarvinnu fer brátt að hefjast.

Halldór Páll Halldósson, skólameistari