Menntaskólinn að Laugarvatni hefur ávallt staðið opinn fyrir björgunarsveitir og slökkvilið ef óskað hefur verið eftir aðstöðu til æfinga. Björgunarskólinn hefur haldið hér námskeið og einnig hafa komið sveitir úr Reykjavík og verið hér yfir helgi með námskeið og fengið þá að nýta sér aðstöðu í stofum til fyrirlestra og gistingar.  Í gærkvöldi kom vaskur hópur manna frá Brunavörnum Árnessýslu og héldu æfingu í meðferð hitamyndavéla sem geta nýst vel til að finna bæði hvar eldur er staðsettur í reykfylltu herbergi og einnig til að finna fólk sem ekki hefur komist út úr brennandi húsum. Æfingin hófst á glærukynningu í fyrirlestrarsal en síðan skiptu menn sér í hópa og æfðu verklega reykköfun á efstu hæð skólans. Þurftu að þreifa sig eftir dimmum gangi og finna mann á bókasafni og koma honum út. Svona æfingar geta verið krefjandi og reynt á menn, bæði andlega og líkamlega og því afar gott að geta haldið svona æfingar í húsnæði sem menn þekkja kannski misvel. Allt tókst þetta mjög vel, allir ánægðir í lok æfingar og ekki spillti að nemendur í þriðja bekk buðu þeim upp á kaffi og kökuhlaðborð að æfingu lokinni. Þau voru með kaffihúsakvöld á sama tíma í matsal og því passaði þetta allt mjög vel.

Við fögnum því að fá Brunavarnir hingað til æfinga og þeir eru ávallt velkomnir, því oftar sem þeir koma, þeim mun betur þekkja þeir húsin þó vonandi þurfi aldrei að koma til þess að á þeim þurfi að halda hér.

Pálmi Hilmarsson