Þetta er ein spennuþrungnasta vika skólaársins, en hún hefst með kynningum frambjóðenda til stjórnar nemendafélagsins Mímis á ágæti sjálfra sín og áhuganum sem þeir bera í brjósti gagnvart þeim embættum sem þeir bjóða sig fram til. Undanfarin ár hefur hlutur fæðutegunda vaxið stöðugt í þessari kynningu – byrjaði fyrir nokkrum árum með heimabökuðum súkkulaðitertum og snakki, en virðist nú vera að færast í heilsusamlegri átt, að einhverju leyti og þá með því að væntanlegum kjósendum er boðið upp á brakandi ferskt, íslenskt grænmeti, sem er auðvitað í góðum takti við stefnu skólans sem heilsueflandi framhaldsskóli.
Frambjóðendur kynna sig sannarlega ekki aðeins með mat. Það verður gefið út rit þar sem þeir fara yfir helstu stefnumál sín, auk þess sem þeir fá tækifæri á framboðsfundi til að koma baráttumálunum á framfæri. Þar fyrir utan hefur reyndin verið sú að blöðum á veggjum hefur fjölgar ótæpilega þegar á hefur liðið vikuna. Í Grænfánaskóla er ekki úr vegi að draga úr slíku, enda takmarkað gagn sem óheft pappísrsflóð gerir, með því kjósendur hætta að greina blöðin fyrir pappírnum, eða þannig.
Í krafti hlutleysis eru ekki birtar myndir frá uppákomum morgunsins.
pms