Nú huga nemendur skólans að stjórnarskiptum í nemendafélaginu Mími og

öflug kosningavika er framundan.

 

Kosningavikan hófst þriðjudaginn 11. janúar en þá opnaði formlega fyrir móttöku framboða nemenda.

Þann 13. janúar verður listi frambjóðenda ljós og þá um kvöldið verður fundur þar sem hverjum frambjóðenda gefst tækifæri til að koma sínum framboðsáherslum á framfæri.

Nemendur hafa svo nokkra daga, eða fram til 16. janúar,  til að kynna sér frambjóðendur og þeir að  koma sér og sínum áherslum á framfæri við aðra nemendur skólans.

Þann 17. janúar er kosningadagur og um kvöldið er svo aðalfundur nemendafélagsins Mímis og þá er talið upp úr kjörkössum og úrslit kosninga kunngerð. Að þessu sinni verður aðalfundi streymt beint í gegnum netið í ljósi samkomutakmarkana. En nemendur menntaskólans hafa staðið sig afar vel í að finna tæknilausnir til leysa vanda sem við stöndum frammi fyrir í tengslum við samkomutakmarkanir.

Þann 18. janúar er fyrri stjórn svo formlega laus frá störfum og mun fagna lokum embættistímans með einhverri grímuklæddri samveru sem verður þeim vonandi til ánægju og yndisauka.

Hér er krækja á heimasíðu Mímis, en þar má finna ýmsar upplýsingar um nemendafélagið Mími.

Menntaskólinn óskar verðandi frambjóðendum góðs gengis og þakkar fráfarandi stjórn fyrir gott samstarf síðastliðið ár.