Þann 23. september síðastliðinn (haustjafndægur) var haldinn stofnfundur í Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir stjörnuskoðunarfélagið Álfakirkju. Hefur félagið aðsetur í menntaskólanum og er opið öllu áhugafólki um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Engin krafa er um lágmarksþekkingu eða að félagar eigi nokkurn tækjabúnað til stjörnuskoðunar.

Með stofnun stjörnuskoðunarfélags er von stofnaðila að hægt verði að efla áhuga á stjörnuskoðun og stuðla að kynnum áhugamanna. Þar er horft til námskeiðahalds, tækjakaupa og skólaheimsókna á Suðurlandi. Að koma til móts við ósk grunnskóla á svæðinu um heimsókn og fræðslu tengda stjörnufræði. Stefnt er að kaupum á meðfærilegum tækjabúnaði þannig að auðvelt verði að standa að viðburði (skólaheimsókn) á fleiri en einum stað. Einnig er félaginu mikilvægt að koma upp aðstöðu til stjörnuskoðunar fjarri áberandi ljósmengun.

Horft hefur verið til tveggja staðsetninga til stjörnuskoðunar með góðu aðgengi.

Laugarvatnsvellir, við Vallalæk í augsýn við klettamyndunina Álfakirkju neðan Þverfells. Þar er einnig að finna í næsta nágrenni, gamlar námur og er svæðið merkt á aðalskipulagi sem afþreyingarsvæði fyrir mótorkrossara. Haft hefur verið samband við Ríkiseignir er hafa tekið jákvætt í hugmyndir félagsins.

Áningarstaðir á Kjalvegi. Með yfirstandandi raf- og ljósleiðaravæðingu á Kili (Orkuskipti á Kili) opnast möguleikar á því að koma upp stjörnuskoðunarstöð utan ljósmengunar. Stöð er einnig væri þá hægt að stjórna með fjarbúnaði. Ekki þarf mikla aðstöðu til að byrja með og allir innviðir eru bráðlega fyrir hendi.

Það er einnig ákveðið öryggismál að aðstaða til stjörnuskoðunar sé afmörkuð á ákveðin svæði, utan stofnbrauta, þar sem aðstaða er til að taka á móti fólki, leiðsegja því og halda á því hita.

Framundan er að vinna styrkumsóknir, afla fjármagns þar sem félagið er í núllstöðu og aðeins í dag rekið með eigin fjárframlögum stjórnarmanna. Félagið er með spjallborð (hóp) á Facebook ásamt opinni síðu. Árgjald félagsmanna er 2000 ISK fyrir eldri en 20 ára, en helmingi lægra til yngri félagsmanna. Netfang félagsins er alfakirkja@gmail.com

Fyrsti formaður félagsins er Håkon Snær Snorrason frá Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi.

Jón Snæbjörnsson raungreinakennari