Stærðfræðikennarar við ML fengu á dögunum styrk úr sprotasjóði. Styrkurinn verður nýttur til þess að innleiða leiðsagnarmat í öllum stærðfræðiáföngum sem kenndir verða við ML næsta haust. Styrkurinn veitir okkur tækifæri til þess að rýna ýtarlega í aðgengileg kennsluverkfæri sem henta til leiðsagnarmats, svo sem orðadæmi/verkefni auk verklegrar stærðfræðikennslu. Markmiðið er að kennarinn verði leiðbeinandi við úrlausnir viðfangsefna og að nemendur njóti sín í náminu og sjái hagnýtari tilgang með stærðfræðinámi og að auka þekkingu okkar sem kennara á hinum stafræna heimi sem auðveldar samskipti nemenda og kennara.
Stærð skólans á Laugarvatni gerir hann að heppilegum vettvangi til að innleiða nýjungar. Stærðfræðin er líklega íhaldssamasta kennslugreinin ef litið er til nýjunga í skólastarfi. Allir áfangar verða settir eins upp (stöðluð uppsetning) í námsumhverfi er býður upp á samvinnu nemenda og kennara (OneNote). Áætlaður afrakstur er námsumhverfi, starfendarannsókn og forsnið fyrir aðra skóla.
Heimasíða Sprotasjóðs er http://www.sprotasjodur.is/
Lóa Björk Óskarsdóttir og Jón Snæbjörnsson stærðfræðikennarar