Ætli það hafi ekki verið í fyrsta skipti í fyrra, að nemendum í öðrum bekk, sem voru nýbúnir að fá bekkjarbúninginn sinn (sem nemendur í þessum skóla fá sér alltaf í öðrum bekk) datt í hug að fá myndir teknar af sér við merki skólans, í nýju búningunum.
Nú eru annars bekkingar þessa árs komnir í nýja búninginn sinn, og viti menn, samkvæmt hefðinni þótti þeim tilhlýðilegt að fá teknar af sér myndir við merki skólans, sem auðvitað var sjálfsagt.
Þarna voru þau mætt á umsömdum tíma og myndatakan hófst með því að þau stilltu sér upp eins og austur-þýskt knattspyrnulið frá áttunda áratugnum. Eftir nokkrar slíkar myndir hófst næsti kafli myndatökunnar, en þá reif hópurinn sig úr jakkanum og var þá auðvitað í bol innanundir. Nú sneru þau sér til veggjar (samkvæmt hefðinni) og þá blasti við nafn eða nafngift, sem af einhverjum ástæðum þótti, þegar búningurinn var pantaður, lýsa eigandanum með einhverjum hætti. Eftir nokkrar svona myndir hófst (enn skv hefð) fíflalátakafli myndatökunnar, en hann var jafnframt lokakafli hennar. Að því búnu hélt hópurinn ánægður í nýju búningunum sínum, í hádegismat.
Myndatökumanninum fannst þetta bara gaman.
Afraksturinn má sjá á myndasíðunni.
-pms