Eftir rúma viku, mánudaginn 20. ágúst, koma nýnemar á staðinn og fá að vera hér ein um stund til að kynnast húsakynnunum, námsfyrirkomulaginu, reglunum, staðnum og hvert öðru, áður en eldri nemar koma til vinnu á þriðjudagskvöld. Í dag er sent bréf til nýnema um nánara fyrirkomulag.
Skólinn verður settur kl. 8:15, miðvikudaginn 22. ágúst og þá hefst kennsla samkvæmt stundaskrá.
Á þessu hausti verða nemendur 180, en það þýðir það að skólinn er fullsetinn og reyndar talsvert umfram það, þar sem heimavistarrými gerir ekki ráð fyrir svo mörgum, en þau mál hafa verið leyst.
Það er sannarlega ánægjulegt hve góð aðsókn hefur verið að skólanum undanfarin ár og ekki síður hve brottfall hefur verið lítið. Við, sem hér störfum, teljum að þessi staða sé skýr vísbending um, að svona skóli eigi fullt erindi við ungt fólk. Við teljum að heimavistarskóli sem þessi, geti myndað afar þroskavænlegt umhverfi fyrir ungt fólk á leiðinni inn í heim sjálfstæðra, fullþroska einstaklinga; hann geti stuðlað að því að skrefið sem tekið er úr foreldrahúsum út í hinn stóra heim verði auðveldara og eðlilegra en ella gæti verið.
-pms