dimissioVerðandi stúdentar frá ML vorið 2010, dimitteruðu s.l. miðvikudag.  Dagskráin þennan dag er afar hefðbundin og þó ýmsar hefðir taki smám saman breytingu í áranna rás, hefur dagskrá þessa dags haldist nánast óbreytt afar lengi.

En fyrst eru formleg stallaraskipti, þar sem fráfarandi stallari afhendir viðtakandi stallara einhvers konar lukkudýr. Í frímínútum þar á eftir birtast dimittendur í búningum sínum.

Það verður að segjast eins og er, að þetta árið var hollingin á hópnum frumleg sem aldrei fyrr, því öllum að óvörum komu 25 typpi hlaupandi niður hringstigann og upphófu dans mikinn og almenn ólæti í holinu fyrir framan mötuneytið 🙂

Þá tóku við heimsóknir í kennslustundir og dimittendaþáttur var lesinn, þ.e. nokkurs konar sagnabrot væntanlegra brottfarenda, af vistinni í ML.

Eftir hádegisverð héldu typpalingar út í þorp, þeirra erinda að taka hús á kennurum sínum og starfsfólki skólans. Að þeirri skrúðgöngu lokinni héldu dimittendur í sund að Stöng samkvæmt gamalli hefð – eru börnum Kristínar Ólafsdóttur og dr. Haraldar Matthíassonar færðar hlýjar þakkir fyrir að taka á móti öllum hópnum!

Um kvöldið skundaði síðan glæsileg fylking sparibúinna 4. bekkinga á veitingahúsið Lindina, þar sem þau snæddu dýrindis kvöldverð með kennurum og starfsfólki. Glæsilegur endir á góðum degi.

Kennarar kvaddir

Sama dag og dimitton var haldin, var haldið smá kveðjuhóf á kennarastofu fyrir tvo kennara, sem hætta munu störfum við skólann í vor. En það eru þau Hilmar Jón Bragason, efna- og stærðfræðikennari og Anna Patricia Aylett, enskukennari.

Dimittendur heimsóttu þau í kennslustund og mátti sjá tár glitra á hvarmi margra nemenda þegar þau kvöddu þessa kæru kennara sína.

Vatnsslagur

Mánudaginn 10. maí,  fyrsta prófdag vorannar, ríkti sannkölluð sumarblíða á Laugarvatni. Sumir nefna það prófblíðu. Þótti tilvalið að bíða ekki boðanna, heldur skella á árlegum vatnsslag í góða veðrinu. Pálmi sótti slökkviliðsbílinn, tveimur tunnum var komið fyrir á túninu fyrir framan Garð og þær fylltar af ísköldu, próflestrarhressandi laugdælsku vatni, nemendur klæddu sig í viðeigandi fatnað og sullið hófst!

Að venju stóð slagurinn á milli 1. bekkinga og allra hinna – hvort það sé sanngjarnt eða ekki er náttúrlega spurning, en sá efi virtist ekki hvíla þungt á nemendum sem nutu þess að sulla og skvetta góða stund, áður en þeir settust aftur niður við próflestur endurnærðir af hressandi útilofti.

Kennaragrín

Eftir vatnsslagsat með prófalestri í kjölfarið var kennaragrín 4. bekkjar kærkomin kvöldskemmtun.

Um það þarf í raun ekki meira að segja en að hlátur ómaði um skólabygginguna þetta mánudagskvöld og að alltaf skal það koma jafn mikið á óvart hvað nemendur eru glúrnir við að koma auga á allt mögulegt og ómögulegt í fari kennara sinna, og hæfileiki þeirra til að geta apað eftir lærifeðrum sínum og -mæðrum.

Myndir af þessu öllu saman eru á myndasíðu!!