3arNú er framundan hjá nemendum sem ljúka 2. bekk á komandi vori, að velja úr áföngum sem áætlað er að verði í boði næsta vetur.  

Í kjölfar hópavinnu, annarsvegar nemenda og hinsvegar kennara, urðu til ýmsar hugmyndir að mögulegum valgreinum og nú vinna kennarar að því að smíða frumdrög að þeim.  Því næst munu krakkarnir fá tækifæri til að kynna sér þessi drög og í framhaldi af því munu þau velja áfanga miðað við brautina sem þau eru á eða áhugasvið. Það er lögð áhersla á, að við valið hugi þau vel að því framhaldsnámi sem þau stefna á – byggi ofan á kjarnagreinar á brautinni. 

Valið verður í tveim umferðum, þar sem í þeirri síðari verða aðeins þeir áfangar sem flestir völdu í fyrri umferðinni.

Um 3ja ára kerfið:

Í nýju þriggja ára kerfi til stúdentsprófs er námbrautaskipulag fyrstu tveggja áranna fyrirfam mótað en á þriðja ári, lokaári til stúdentsprófs, hafa nemendur mun meiri valmöguleika en áður var.  Að því leytinu líkist þriðja árið áfangakerfi að hluta til á haustönninni og að miklu leyti á vorönninni.  Fyrir utan almenna valáfanga sem tíundaðir eru hér að neðan verður skörun að hluta milli brauta þannig að nemendur á annarri brautinni geta valið nokkra áfanga sem eru bundnir á hinni brautinni.  Hér innanhúss eru það svonefnd „krosstengsl“.

Svo eitthvað annað sé nefnt geta nemendur á báðum brautum, Félags- og hugvísindabraut (Fél) og Náttúruvísindabraut (Nát), að auki valið framhaldsáfanga í flestum þeim greinum sem bundnar eru á þeirra braut og að auki byrjunaráfanga í spænsku, samþætta áfanga í heilbrigðisfræði/næringafræði/matreiðslu, í lögfræði/bókfærslu/hagfræði, í leiklist/tjáningu/tónlist, í myndlist/kvikmyndagerð/ljósmyndun, í veðurfræði/haffræði og jafnvel í fatagerð/hönnun.

Þessa utan er val á fjórum útivistaráföngum og kóráföngum alla skólagönguna.

Menntaskólinn að Laugarvatni þróast sem aldrei fyrr og við horfum full bjartsýni fram á veginn.

HPH/PMS