Þrjátíu og níu nýstúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum að Laugarvatni nýliðinn laugardag, 6. júní s.l. Í samræmi við fjöldatakmarkanir á þeim tíma voru 200 manns á útskriftinni, nýstúdentar og fjölskyldur þeirra, starfsmenn skólans sem og nokkrir aðrir sem komu að hátíðardagskránni svo og einnig tæknimenn frá Sonik þar sem athöfninni var streymt.
Bestum heildarárangri nýstúdenta náði Helga Margrét Óskarsdóttir frá Hruna í Hrunamannahreppi en hún var með aðaleinkunnina 9,52 sem er vegið meðaltal allra áfanga sem hún tók við skólann á þriggja ára námsferli sínum. Er það níundi besti árangur nýstúdents á stúdentsprófi í sögu skólans. Semi dux nýstúdenta var Anna Björg Sigfúsdóttir frá Borgarfelli í Vestur-Skaftafellssýslu með aðaleinkunnina 9,37. Hlutu þær sem og fjöldi annarra nýstúdenta viðurkenningar kennara og fagstjóra skólans fyrir afburða árangur í hinum ýmsu greinum. Nýstúdentar sem setið höfðu í stjórn nemendafélagsins Mímis hlutu og viðurkenningu fyrir störf sín. Eins hlutu Þorfinnur Freyr Þórarinsson fráfarandi stallari sérstaka stallaraviðurkenningu og Helga Margrét Óskarsdóttir fráfarandi varastallari sérstaka viðurkenningu fyrir óeigingjörn störf í þágu skólans og nemendafélagsins.
Í ræðu fulltrúa nýstúdenta, Þorfinns Freys, kom m.a. fram: „Þó að okkur líði eins og við séum nýbyrjuð í skólanum, þá höfum við margt lært á þessum stutta tíma. Við höfum þó ekki bara lært allt sem að kennararnir hafa sagt okkur eða það sem að stendur í bókunum heldur höfum við líka lært margt annað sem á eftir að nýtast okkur í lífinu. Við höfum lært hvernig á að haga sér í litlu samfélagi, vera sjálfstæð og taka ábyrgð á hlutunum og svo margt annað.“
Jóna Katrín Hilmarsdóttir áfangastjóri og staðgengill skólameistara flutti annál skólaársins. Nústúdentar færðu henni hálsmen sem þakklætisvott, en hún var umsjónarkennari þeirra öll skólaárin þrjú.
Fulltrúi afmælisárganga, Karen Kjartansdóttir tuttugu ár júbilant, flutti ræðu fyrir þeirra hönd og talaði m.a. til nýstúdentanna um það hvað það er sem skiptir máli í lífinu, um þau gildi sem hafa ber í huga.
Þeir nýstúdentar sem eru í kór ML, eða 21 af 39, sungu tvö lög undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur kórstjóra skólans en í Kór ML voru nýliðinn vetur rétt tæplega 100 nemendur eða um þrír fjórðu nemenda skólans. Það má teljast einstakt.
Skólameistari ávarpaði nýstúdenta í lok hátíðardagskrár og sagði meðal annars: „Ræktið vináttu ykkar, hún er til lífsstíðar. Það er lífsstíll að vera ML-ingur. Leitist við að hittast sem oftast í þeirri veröld sem er utan holtsins okkar, en því er ekki að neita að á stundum leitar að manni sú hugsun að ekkert sé utan dalsins fagra. Hér er ólýsanlega fögur veröld í alheimi, í eiginlegri sem huglægri merkingu. Hér er lífið !“
Veitt var úr styrktarsjóði Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur, fyrrverandi skólameistarahjóna, að Rannveigu (Bubbu) viðstaddri, hið þrettánda sinni þeim “nýstúdentum sem sýnt hafa frábæran dugnað, hæfileika og ástundun í námi” eins og stendur í stofnskrá að skuli gera. Styrki hlutu:
Helga Margrét Óskarsdóttir frá Hruna í Hrunamannahreppi, nýstúdent af náttúruvísindabraut
Anna Björg Sigfúsdóttir frá Borgarfelli í Vestur-Skaftafellssýslu, nýstúdent af náttúruvísindabraut
Guðrún Karen Valdimarsdóttir frá Mosfellsbæ, nýstúdent af náttúruvísindabraut
Laufey Helga Ragnheiðardóttir frá Langholtskoti í Hrunamannahreppi, nýstúdent af náttúruvísindabraut
Dux scholae veturinn 2019-2020 er Guðný Salvör Hannesdóttir (Gísella) frá Arnkötlustöðum í Rangárþingi ytra með einkunnina 9,7 sem er vegið meðaltal áfanga vetrarins með einum aukastaf. Semi dux scholae nýliðins vetrar er Helga Margrét Óskarsdóttir með einkunnina 9,6.
Á útskriftinni var Fanneyju Gestsdóttur frá Hjálmstöðum í Laugardal þökkuð vel unnin störf, en í ríflega áratug hefur hún starfað sem þvottatæknir í skólanum. Hún lætur af störfum fyrir aldurssakir.
Skólameistari
Ljósmyndir: Ívar Sæland ljósmyndari.