fatahaugurÞær Fanney Gestsdóttir og Elín B Haraldsdóttir, sem starfa í þvottahúsi skólans, settu upp sýningu á fatasafni í hádeginu í dag. Hér var ekki um að ræða svona safn eins og við eigum að venjast, þar sem er að finna sýnishorn af fatnaði frá ýmsum tímum, heldur fatnað nemenda skólans, sem hefur orðið viðskila við eigendur frá því í haust. Sýningin var sett upp til að freista þess að fá unga fólkið, þar sem það kom satt og ánægt frá því að borða miðvikudagsfiskinn sinn, til að staldra við og finna flíkur sem það er búið að sakna lengi og hefur jafnvel talið sér glatað að eilífu.

Það var þó nokkur hópur sem staldraði við. Aðrir flýttu sér hjá. 

Þann tíma sem skrásetjari þessa dvaldi á sýningunni fann stúlka þvottapokann sinn. Einhverjir veltu einhverju fatakyns fyrir sér og fundu jafnvel eitthvað sem hugsanlega gæti hafa tilheyrt þeim, gæti hafa horfið og gæti nú verið komið í leitirnar aftur.

Að sögn Fanneyjar og Elínar er of mikið um að óskilafatnaður safnist upp í þvottahúsinu. Þarna er aðallega um að ræða fatnað sem er ómerktur eða þá að merkingin er orðin ógreinanleg.   Þær kalla eftir því að unga fólkið sé betur vakandi með þessar eigur sínar, en varlega áætlað má gera ráð fyrir að verðmæti þessarar fatasýningar hafi verið um það bil hálf milljón.

/pms

Hér eru fleiri myndir frá sýningunni.