Hópur að leggja af stað upp í SkilandsdalFimmtudaginn 26. september sl. fór framhaldshópur útivistarinnar í ML í sína árlegu tjaldútilegu, og var gengið um nágrenni Laugardals og gist í tjöldum eina nótt. Markmiðið var sem fyrr að þjálfa nemendur í að útbúa sig rétt fyrir svona ferðir og að þeir fengju reynslu í tjöldun, eldamennsku í óbyggðum, ofl. Eins og nokkur undanfarin ár var ferðinni heitið í Skillandsdal, sem er dalur inn af Hjálmsstöðum í Laugardal.

Hópurinn lagði af stað um kaffileytið og gekk sem leið liggur frá ML í gegnum hjólhýsahverfið og svo inn í Skillandsdal, en þangað kom hópurinn um kl: 20:00 í myrkri en þokkalegu veðri. Þegar áningarstað var náð var tjaldað, en fjórir nemendur unnu saman við hvert tjald. Að lokinni tjöldun hélt allur hópurinn í hellisskúta rétt hjá og útbjó dýrindis pylsuveislu en hópurinn notaði við það pottasett og tilheyrandi sem ML á. Skólinn hefur smátt og smátt verið að auka við tækjakost vegna útivistarferða og kennslu. Það kom sér vel í þessari ferð, en nýverið voru keypt 20 höfuðljós sem nemendur voru með notuðu.  

Fljótlega að lokinni kvöldmáltíð var gengið til náða en í allt voru þetta 22 nemendur í  sex tjöldum. Um morguninn vöknuðu flestir milli átta og níu, fengu sér morgunmat sem Svenni bryti hafði útbúið, tóku saman tjöldin og gerðu sig klára fyrir heimferð. Um kl:11:30 höfðu allir skilað sér heilu og höldnu heim  eftir vel heppnaða tjaldferð í fínu veðri, þar sem allir stóðu stig með ágætum. Aðeins bar á að nemendur væru ekki  með nógu stóra bakpoka en svona ferðir eru til að læra af. Fararstjórar í þessari ferð voru Óli Guðm. íþrótta-og útivistarkennari og Pálmi Hilmarsson, húsbóndi.

Ólafur Guðmundsson fagstjóri í íþróttum og útivist.

MYNDIR