utv372tjaldferdÚTV372  myndir

Einn af þeim áföngum sem nemendur í útivist þurfa að skila, er að fara í tjaldferð hér aðeins inn á fjöll. Undirbúningur fer fram í bóklegum tímum áður en lagt er af stað, þar sem farið er vandlega yfir klæðnað, skó og annan búnað sem þarf að vera í lagi í ferð sem þessari. Það var svo þriðjudaginn 11 sept. í hálfgerðu kalsaveðri sem fríður flokkur lagði af stað frá aðaldyrum ML og gekk sem leið lá gegnum þorpið og inn í dal um tjaldsvæðin og sumarhúsabyggðina í Snorrastaðaskógi.

 Með í för voru Smári Stefánsson kennari og Pálmi Hilmarsson húskall með meiru. Áfram gengum við upp í hina svokölluðu Skál sem er í hlíðum Snorrastaðafjalls og þaðan niður í Fagradal. Síðan eftir svokölluðum Hryggjum með viðkomu í hlaðinni gamalli tóft frá þeim tíma sem menn sátu yfir ánum á þessum tíma. Einnig stöldruðum við aðeins við hjá steini sem Hjálmsstaðamenn ristu nöfn sín í hér á árum áður þegar þeir dvöldu þarna við fjárgæslu eða rjúpnaveiðar. Endastöðin var svo gömul fjárrétt sem er innst í Skillandsdal skammt frá stað sem heitir Grensás. Þar var slegið  upp tjaldbúðum og gekk það vel. Spölkorn frá ber svo vel við að er flottur hellisskúti sem heitir Raufarhellir vegna gats sem er í lofti hans. Þar var kveiktur eldur og yfir honum hitaðar pylsur á greinum sem við höfðum gripið með okkur í skóginum á leiðinni. Síðan tóku sumir sig til og léku sér í sköflum sem voru þarna við hendina því nóttina áður hafði snjóað talsvert og enn var nokkuð eftir af honum. Smám saman fóru svo menn að skríða í poka og koma sér í góð föt því ljóst var að kalt yrði um nóttina enda fór það svo að frostið var líklega 5 – 6 gráður. Vel gekk að ganga frá eftir morgunverð og við komum á Laugarvatn aftur skömmu fyrir hádegi á miðvikudag í afar fallegu og góðu veðri og töldumst heppin með það enda hefur rignt nokkuð sleitulaust síðan.

 

Smári Stefánsson

Pálmi Hilmarsson