Kór1Miðvikudaginn 21. mars hélt kór Menntaskólans að Laugarvatni tónleika í Skálholtskirkju ásamt gestakór sem kom alla leiðina frá Bandaríkjunum, nánar tiltekið Chicago. Sá kór er einnig menntaskólakór (highschool) og samanstendur af 40 nemendum sem öll lesa nótur og spila á hljóðfæri. Þau gáfu okkar kór ekkert eftir og gerðu sér lítið fyrir og sungu með kór ML tvö lög á íslensku í lokin! Þjóðlögin voru áberandi hjá báðum kórum og einnig sungu gestirnir okkar gospel tónlist sem var lífleg og skemmtileg. Það má með sanni segjast að tónleikarnir hafi heppnast afar vel og gaman fyrir kórinn okkar að fá að kynnast öðrum skemmtilegum og metnaðarfullum krökkum. Þau klöppuðu ákaft fyrir hvert öðru og stóðu sig með prýði, við getum verið stolt af kórnum okkar hér í ML sem samanstendur af 107 nemendum skólans. En þess má geta að Ástráður Unnar Sigurðsson spilaði á píanó í tveimur lögum og gerði það með sóma. Eyrún Jónasdóttir kórstjóri á einnig heiður skilið fyrir að ná fram því besta úr kórmeðlimum. Það styttist svo í kórferðina til Ítalíu og óhætt er að segja að mikil spenna sé í loftinu fyrir því!

Fleiri myndir hér.

Karen Dögg – verkefnastjóri kórs ML