Á morgun, laugardag, 24. mars, kl. 16:00 verða haldnir merkir tónleikar í Háteigskirkju.
Frumkvæðið að þeim eiga fyrrum félagar í ML-kórnum hinum eldri, en s.l. haust voru liðin 20 ár frá stofnun kórsins. Hann starfaði undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar í rúm 11 ár. Á s.l. hausti var kór ML endurvakinn og nú undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur. Báðir kórarnir koma fram á tónleikunum, en Tríó Kjartans Valdimarssonar hreyfir við hljóðfærum og það er meira en líklegt að tónlistarmenn sem uxu upp úr kórnum hjá Hilmari, til enn frekari þroska og menntunar á tónlistarsviðinu, komi fram í einhverjum mæli líka.
Eftirfarandi er umfjöllun fyrrum kórfélaganna um tónleikana:
Árið 1991 var Hilmar Örn Agnarson ráðinn kórstjóri við Menntaskólann að Laugarvatni og stofnsetti þá kór skólans. Kórinn átti um 12 ára blómaskeið og söng þá fjórði hver nemandi með auk tveggja kennara. Hlutfallið hlýtur að telast óvenjuhátt í framhaldsskóla og ber vitni um sönggleðina sem kórnum fylgdi. Kórinn ferðaðist um landið og söng, gaf út kasettur og hljómdiska og varð mikilvægur hluti af leikfélagi skólans sem setti á fjalirnar m.a. söngleikina Land míns föður, Fiðlarann á þakinu og Kabarett. Við sem vorum í kórnum á þessum tíma skiljum núna hversu mikils virði það var að fá að taka þátt í tónlistar- og leiklistarstarfi og við kunnum svo sannarlega að meta það. Í dag viljum við þakka Hilmari Erni og Ingunni Jensdóttur leikstjóra fyrir uppeldið og ekki síst heiðra minningu skólameistarans okkar, Kristins Kristmundssonar sem féll frá haustið 2010. Kristinn og Bubba umvöfðu okkur hreinlega á þessum árum. Við óskum líka nýjum kór Menntaskólans og kórstjóra hans, Eyrúnu Jónasdóttur, alls hins besta.
Félagar úr Kór Menntaskólans að Laugarvatni hinum eldri
-pms