trollaskagataekiEftir því sem fartölvurnar hafa rutt sér til rúms í námi og kennslu hefur birst ákveðinn vandi að því leyti, að þegar ákveðinn var fjöldi raftengla í skólastofum var þörfin talsvert vanmetin, nema þá að lausninni hafi meðvitað verið varpað á framtíðina. Undanfarin 5-10 ár hefur þörfin fyrir viðbótarinnstungur í skólastofum farið stöðugt vaxandi eftir því sem kennarar hafa verið að miða kennsluaðferðir meira við tölvunotkun.

Þá hefst sagan sem er tilefni þessara skrifa.

Síðastliðið vor í kringum sumardaginn fyrsta skellti starfsfólk skólans sér í fræðsluferð norður í land í þeim tilgangi helstum, að kynna sér starfsemi tveggja norðlenskra framhaldsskóla: Menntaskólans á Tröllaskaga og Menntaskólans á Akureyri. Allt þetta gekk eftir eins og aðrir þættir ferðarinnar og henni hafa þegar verið gerð skil hér að öðru leyti en því sem hér greinir frá.

 

Í Menntaskólanum á Tröllaskaga var gestum boðið til stofu þar sem stjórnendur kynntu starfsemi þessa nýja skóla. Það var í þessari stofu sem skólameistari rak augun í verkleg fjöltengi sem ætluð voru einmitt fyrir fartölvur í skólastofum. Þau voru þannig hönnuð að það var ekki líklegt að þau gætu horfið óvart ofan í tösku og í hvert þeirra var hægt að stinga 9 fartölvum. Eftirgrennslan leiddi í ljós að það var Gísli Kristinsson, húsvörður, kerfisstjóri og fleira (nokkurskonar Pálmi Hilmarsson Tröllaskagamanna) sem hafði hannað og smíðað þessa gripi. Það þarf ekki að orðlengja það, skólameistari pantaði talsvert magn fjöltengja af þessari tegund og það var síðan kennurum ML til óblandinnar ánægju, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þegar Tröllaskagafjöltengin komu í hús fyrir skemmstu. Þau eru nú þegar komin í notkun vítt og breytt um skólann.

-pms