IMG_3637Í lok september hófst leitin af leikstjórum fyrir árshátíðarleikritið 2011. Afrakstur leitarinnar lét ekki á sér standa, tveir ungir áhugamenn um leiklist, leikstjórn og handritagerð hafa tekið starfið að sér fyrir Nemendafélagið Mími. Það eru þau Árný Fjóla Ásmundsdóttir búsett í Norðurgarði á Skeiðum og Ólafur Ingvi Ólafsson búsettur í Litlu-Sandvík í Sandvíkurhrepp. Luku þau bæði stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands síðast liðið vor og tóku þau virkan þátt í félagslífi skólans og uppsetingu á leikritum á vegum NFSu.

Þau hafa bæði sótt leiklistarnámskeið, þess má geta að Árný Fjóla leikur í íslensku bíómyndinni Gauragangi sem frumsýnd verður í desember. Staða undirbúnings nú er sú að handritasmíð er á lokastigi en Ólafur Ingvi sér um gerð þess.

Um fimmtán hlutverk verða í verkinu og undanfarna daga hafa leikstjórarnir unnið með áhugasömum nemendum í menntaskólanum og söngprufur munu hefjast í lok nóvembermánaðar. Stefnt er að því að skipa í hlutverk fyrir jól og handrit verður afhent leikurum til yfirlestar. Leikæfingar hefjast svo að fullu á nýju ári. Frumsýning verður í Aratungu 18.mars 2011.

 

Guðbjörg Guðjónsdóttir árshátíðarformaður