Gönguhópurinn leggur í hann.Það var vaskur hópur ML-nemenda í framhaldsáfanganum í útivist ásamt tveimur fararstjórum, Óla kennara og Pálma húsbónda, sem lagði í göngu frá Kringlumýri, sunnan Litla Reyðarbarms, mánudaginn 3. nóvember sl.

Lagt var af stað frá ML kl. 13:00 og óku Pálmi og Erla hópnum á upphafsstaðinn. Nokkru  áður en gangan fór fram hafði Pálmi gengið leiðina og komið þar fyrir hælum og tekið hnit þeirra. Það var svo markmið ferðarinnar að nemendur fyndu hælana á leið sinni til baka að Laugarvatni með GPS tækjum, en búið var að skipta nemendum í þrjá þriggja manna hópa og skiptust þeir á að leiða gönguna.

Leiðin lá norður með Litla Reyðarbarmi framhjá Vallarétt, sem er gömul hlaðin rétt, þar sem nemendur hvíldu lúin bein og snæddu nesti. Þaðan var haldið í Laugarvatnshelli. Eftir hvíldina var gengið norður eftir Laugarvatnsvöllum og farið austur yfir rana við Grenhóla. Gengið var um Langamel, Helgadal og þaðan að heimavistum ML.

Mjög gott veður var í ferðinni og voru nemendurnir ellefu með eindæmum jákvæðir sem gerir svona ferð skemmtilega og lærdómsríka.

Kv. Óli Guðm. og Pálmi Hilmars.

MYNDIR