Útivistarhópur á Fannborg í KerlingarfjöllumFöstudaginn 4. september s.l héldu nemendur í útivistarvali á fyrsta ári í gönguferð á vegum skólans. Hópurinn var nokkuð stór en 31 nemandi af 52 nýnemum skólans skráðu sig í áfangann útivist sem byggir á grunnþáttum í ferðamennsku og skyndihjálp.

Að þessu sinni var haldið í Kerlingarfjöll.  Rútubílstjóri að venju var Pálmi Hilmarsson en kennarar í ferðinni voru Helga Kristín Sæbjörnsdóttir og Smári Stefánsson.

Það var góð stemning var í hópnum og eftir að allir höfðu komið sér fyrir í gamla skála FÍ í Kerlingarfjöllum var haldið af stað með rútunni upp á Jökulhrygg eða Keis, þar sem gangan hófst.

Gengið var upp á Fannborg í blíðskaparveðri og var útsýni gott til allra átta, þar sást meðal annars til sjávar í suðri að meðtöldum jöklahringnum þar sem Langjökull, Hofsjökull og Vatnajökull nutu sín til hins ýtrasta. Á niðurleiðinni renndu nemendur sér niður fannir Fannborgar og fóru sumir jafnvel oftar en einu sinni, svo mikið var fjörið.

Áður en haldið var niður að skála var gengið um Hveradali, en þó rétt aðeins til þess að kynnast þessum ótrúlega krafti sem þarna liggur. Nemendur voru þreyttir og sumir blautir eftir slaginn við snjóinn og því ákveðið að halda áfram “heim” á leið.

Nemendur sáu sjálfir um að elda matinn með aðstoð Pálma. Þá var skipaður frágangshópur sem sá til þess að gengið yrði frá eftir matinn. Skemmtihópur átti að sjá um kvöldvöku en nokkuð góð stemning myndaðist innan hópsins og var því lítið hugsað um fyrirfram skipulagt skemmtikvöld vegna þess.

Á laugardagsmorgni var hópurinn rólegur enda nokkuð íslenskt haustveður með roki og rigningu fyrir utan hlýjan og notalegan skálann. Nemendur gengu frá í rólegheitunum, pökkuðu öllu sínu í bakpoka og töskur og nærðu sig fyrir síðasta áfanga ferðarinnar áður en haldið var af stað með rútunni áleiðis að Skipholtskrók. Gengið var í átt að Kili og var ætlunin að finna hið heilaga gral eða kaleik Krists, en þess má geta að ekkert bólaði á bikarnum og leitarfólkið blotnaði talsvert í skammri “leit”. Heim hélt hópurinn sáttur eftir sína fyrstu útivistarferð á vegum ML og fóru þau vafalaust nokkuð sæl að sofa eftir ævintýralega ferð í Kerlingarfjöllum.

Takk fyrir samveruna.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, fagstjóri íþrótta- og útivistar.