Hópurinn að leggja af stað í tjaldútilegu.Mánudaginn 15. september fór framhaldshópur útivistarinnar í ML í sína árlegu tjaldútilegu, þar sem gengið er um nágrenni Laugardals og gist í tjöldum eina nótt. Markmiðið var sem fyrr, að þjálfa nemendur í að útbúa sig rétt fyrir svona ferðir og að fá reynslu í tjöldun, eldamennsku í óbyggðum ofl.  

Eins og nokkur undanfarin ár var ferðinni heitið í Skillandsdal, sem er dalur inn af Hjálmstöðum í Laugardal. Hópurinn lagði af stað um kaffileytið og gekk sem og leið lá frá skólanum í gegnum hjólhýsahverfið, áfram í gegnum Giljareiti yfir í Fagradal og svo inn í Skillandsdal en þangað kom hópurinn um kl. 20:00 í góðu veðri og þokkalega björtu. Þegar áningarstað var náð þá tjölduðu nemendur, en þrír til fjórir unnu saman. Að lokinni tjöldun hélt allur hópurinn í hellisskúta rétt hjá og útbjó dýrindis pylsuveislu, en hópurinn notaði við það búnað sem skólinn á og er ætlaður til þess arna. Skólinn hefur smátt og smátt verið að auka við tækjakost til útivistarferða og kennslu. 

Að lokinni kvöldmáltíð sat hópurinn saman á spjalli í góða veðrinu dágóða stund áður en gengið var  til náða. Í hópnum voru níu nemendur í  þremur tjöldum.

Um morguninn vöknuðu flestir milli sjö og hálfátta, fengu sér morgunmat sem Svenni bryti hafði útbúið, tóku saman tjöldin og gerðu sig klára fyrir heimferð. Um kl: 09:30 höfðu allir skilað sér heilu og höldnu heim  eftir vel heppnaða tjaldferð í fínu veðri þar sem allir stóðu stig með miklum ágætum.

Fararstjórar í þessari ferð voru Óli Guðm. íþrótta- og útivistarkennari og Pálmi Hilmarsson, húsbóndi.

ÓG

MYNDIR