Hópmynd frá HólaskógiFöstudaginn 19. sept. 2014 lagði hópur nemenda, 15 talsins, í grunnáfanga í útivistarvali í ML, af stað í árlega haustgögnuferð. Ferðinni var heitið í Hólaskóg í Þjórsárdal. Búið var að kynna nemendum í kennslustund, allt er varðaði ferðina eins og hvað skyldi taka með, hvenær skyldi lagt af stað o.s.frv.

Klukkan 10:00 voru nemendur klárir í rútuna og lagt var af stað og ekið sem leið lá að Stöng í Þjórsárdal. Þar var nestinu fyrir daginn útbýtt, nemendur fóru í göngugallann o.s.frv. Um 12:00 var lagt af stað frá Stöng og gengið meðfram fjallinu Stangarfelli að Háafossi. Þar var fallegur fossinn skoðaður. Frá Háafossi var síðan gengið línuveginn svokallaða í náttstað sem var Hólaskógarskáli.

Þessi nemendahópur var einstaklega samheldinn og samstíga og tók það hann einungis um fjórar klst. að ganga um 13,5 km vegalengd sem er veruleg bæting á tímameti fyrri ára, en yfirleitt hafa hóparnir klárað þessa leið á um fimm og hálfri klst. Nemendur blönduðu svo geði fram að kvöldmat.

Um kl. 19:00 tók grillhópurinn svokallaði til við að grilla pyslur af miklum móð og stóðu nenendur sem skipuðu þann hóp sig vel. Að gómsætri pylsumáltíð lokinni tók skemmtihópurinn til starfa við að undirbúa kvöldvöku, á meðan aðrir slöppuðu af og létu fara vel um sig. Kvöldvakan heppnaðist mjög vel, en hún samanstóð af þrautum ýmiskonar þar sem keppni var milli hópa. Frábært þar sem allir nemendur tóku þátt og höfðu mjög gaman af. Um kl: 01:00 voru flestir sofnaðir eftir erfiðan en skemmtilegan dag.
Morguninn eftir var ræst í morgunmat um kl. 08:00 og svo að sjálfsögðu endaði skálaveruna þrifhópurinn mikli sem fór eins og stormsveipur um efri hæð skálans og þreif hann á engum tíma. Að því loknu var stillt upp í hópmyndatöku fyrir utan Hólaskógarskála.
Klukkan rúmlega tíu var svo lagt af stað í loka göngusprettinn sem var niður að Stöng aftur og lokuðum við þannig gönguhringnum. Voru þetta um 6 km. Pálmi húsbóndi skilaði okkur svo á Laugarvatn aftur, með viðkomu hjá Hjálparfossi. Voru það þreyttir en ánægðir krakkar, stoltir yfir að hafa lagt að baki um 20 km göngu, sem komu á Laugarvatn um miðjan laugardaginn 20. september.

Með útivistarkveðju
Óli G, Emilia og Pálmi.

MYNDIR ÚR FERÐINNI