laxrglj 2010_thumb150_Það eru bráðum orðin ein 10 ár síðan farið var að bjóða upp á valáfanga í útivist við Menntaskólann að Laugarvatni. Skemmst frá því að segja að frá upphafi hefur áfanginn notið mikilla vinsælda enda um afar skemmtilegan, krefjandi og fjölbreyttan áfanga að ræða. Fyrsta ferð nýnema hefur undanfarin ár verið ganga meðfram Laxárgljúfrum og ekki var breytt frá því þetta árið.  Það voru 40 nemendur ásamt 3 fararstjórum, þeim Ólafi Guðmundssyni fagstjóra í útivist og íþróttum, Pálma Hilmarssyni húsbónda og Emilíu Jónsdóttur sem kom með okkur en hún er alvön sem leiðsögumaður og afar gott að hafa hana með í för.

Lagt var í hann frá Laugarvatni föstudaginn 9 sept kl. 10.30. Ekið var inn með hlíðum og stoppað aðeins við Geysi en síðan farið yfir Hvítá við Brúarhlöð og inn Tungufellsdal áleiðis inn á afrétt Hreppamanna. Þar er farið eftir línuveginum að afrein niður að gljúfrunum. Hægt er að keyra langleiðina að afréttagirðingunni en þaðan er svo gengið á gljúfurbarminum. Gangan hófst kl. 13.00 við rútuna og tók alls um 5 tíma en flestir voru komnir til baka kl. 18.00. Við fórum eins langt og aðalgljúfrin ná eða um það bil 7, 5 km frá rútunni. Gangan varð því samtals um 15 km sem er harla gott fyrir krakka sem eru mörg hver ekki vön slíkum göngum. Útsýnið á leiðinni er ekki amalegt en gljúfrin eru víða um 100 m djúp og allhrikaleg að sjá. Veðrið var ágætt, sól en nokkuð hvasst í fangið á bakaleiðinni.  Við héldum síðan áfram för austur eftir línuveginum og yfir á afrétt Skeiða og Gnúpverja. Fórum yfir Fossána á vaði nokkuð ofan við Háafoss en vegna þess að við vorum orðin í seinna lagi á áfangastað ákváðum við að stoppa ekki þar. Komum í Hólaskóg um kl. 19.30 og var þá strax farið í að koma sér fyrir og undirbúa grillið en í kvöldverð voru grillaðar pylsur sem nemendur sáu um. Hópnum hafði verið skipt í grillhóp, þrifahóp og skemmtihóp. Grillhópur sá um kvöldverð og frágang eftir hann, skemmtihópurinn var með kvöldvöku og þrifhópurinn gekk frá húsinu eftir okkur á laugardagsmorguninn. Þegar því var lokið var gengið frá Hólaskógi að Stöng í Þjórsárdal, ekki treystu allir sér til þess og fengu far með rútunni en gærdagurinn kostaði nokkur hælsæri og önnur eymsli en það jafnar sig allt.  Frá Stöng fórum við um kl. 12.00 og stoppuðum aðeins við Hjálparfoss en að því búnu lá leiðin beint á Laugarvatn með nokkrum stoppum til að hleypa krökkum út sem fóru til síns heima á leiðinni. Komum heim um kl. 13.30 og það voru þreyttir en ánægðir nemendur sem gengu á vistina, líklega hafa einhverjir lagt sig.

Ferðin tókst í alla staði vel og eiga nemendur hrós skilið fyrir dugnað og góðan anda í ferðinni. Næsta ferð með þennan hóp verða kanóferðir niður Hólaá sem enda í Apavatni.

 

Ólafur Guðmundsson

Pálmi Hilmarsson

Emilía Jónsdóttir.